Innlent

Tekjuaukning 300.000 á klukkustund

Kuldakastið eykur tekjur Orkuveitu Reykjavíkur um 300 þúsund krónur á hverri klukkustund. Fara þarf hundrað ár aftur í tímann til að finna dæmi um meiri frosthörkur í Reykjavík í nóvembermánuði. Fólk var vel dúðað sem var á ferli utandyra í höfuðborginni í dag. Reyndar hefur verið óvenju kalt á öllu landinu miðað við árstíma, einkum á Suður- og Vesturlandi. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar var frostið á allmörgum veðurathugunarstöðvum 15-20 stig í nótt og dæmi var um 23 stiga frost. Í Reykjavík fór frostið niður í 15 gráður og þarf að fara yfir 100 ár aftur í tímann til að finna dæmi um meira frost í nóvember. Hjá nútíma Íslendingum kemur þetta ekki að sök, þökk sé meðal annars hitaveitunni sem dælir ylnum úr iðrum jarðar og alla leið inn í hýbýli manna. Og það er einmitt Orkuveita Reykjavíkur sem helst græðir á svona frosthörkum. Þegar frostið var mest í morgun um það leyti sem borgarbúar voru að fara á fætur dældi kerfið hátt í 13 þúsund tonnum af heitu vatni á klukkustund inn í hús viðskiptavinanna. Þetta vatnsmagn dugar til að fylla 50 þúsund baðker en það selur Orkuveitan á um eina milljón króna. Um þriðjungur þess er áætluð viðbótarsala vegna kuldakastsins þannig að áætla má að gróði fyrirtækisins vegna frostsins hafi farið yfir 300 þúsund krónur á klukkustund. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×