Innlent

Skattahækkanir borgarbúum dýrar

Skattahækkanir Reykjavíkurlistans munu auka skattgreiðslur dæmigerðrar reykvískrar fjölskyldu um 25 þúsund krónur á ári. Þetta er mat Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Í fjárhagsáætlun meirihluta borgarstjórnar fyrir næsta ár er gert ráð fyrir 2,6 prósenta hækkun útsvars og 7,8 prósenta hækkun fasteignaskatts. Útsvarið verður þá komið í hámark samkvæmt lögum sem er 13,03 prósent. Kjartan sagði í umræðum í borgarstjórn í vikunni að eftir því sem skattar hækkuðu þyrfti fólk að vinna meira til að halda sömu lífskjörum. Þar af leiðandi gæfist minni tími til fjölskyldulífs. Skattahækkanir R-listans væru því beinlínis fjölskyldufjandsamlegar. Þá rifjaði Kjartan upp kosningaloforð borgarfulltrúa R-listans um að skattar yrðu ekki hækkaðar undir þeirra stjórn. Fyrir kosningar árið 1998 hafi frambjóðendur hans meira að segja lofað að lækka þá. Hækkun fasteignaskatts er tímaskekkja miðað við þróun á fasteignamarkaði að mati Kjartans. "Á síðustu árum hefur húsnæðisverð í borginni hækkað mikið og það hefur skilað sér í hærri greiðslum fasteignaskatts í borgarsjóð," sagði hann. "Þetta hefur leitt til þess að fasteignaskattar Reykvíkinga hafa hækkað gífurlega á síðustu árum og það er því tímaskekkja að ætla sér einnig að hækka skattprósentuna eins og R-listinn gerir nú." Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, segir að fyrir kosningar 1998 hafi R-listinn gefið loforð um að holræsagjöld myndu lækka og staðið hafi verið við það. Hins vegar hafi engin loforð verið gefin um þetta í kosningunum árið 2002. Hvorki um hækkun né lækkun. "Við töldum skynsamlegast að hækka þessi gjöld nú til að standa undir útgjöldum sem eru að bætast á okkur í stað þess að skera niður þjónustu eða auka skuldir," segir Árni. Varðandi hækkun fasteignaskatts segir Árni að skatturinn hafi lækkað mjög á undanförnum árum vegna hækkunar fasteignamats. Þess vegna hefðu tekjur borgarsjóðs af fasteignaskatti minnkað á ákveðnu tímabili en nú sé verið að leiðrétta það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×