Innlent

Gagnast eignamiklu hátekjufólki

Fyrirhugaðar skattabreytingar ríkisstjórnarinnar gagnast helst eignamiklu hátekjufólki að mati hagfræðings Félags eldri borgara. Hann segir að nær hefði verið að hækka skattleysismörk til að koma á móts við þá tekjulægstu. Framkvæmdastjóri ASÍ segir þær ekki vera aðgerð til tekjujöfnunar, heldur þvert á móti. Samkvæmt frumvarpi sem ríkisstjórnin samþykkti í gær mun eignaskattur verða afnuminn, barnabætur hækka um tæpan helming og tekjuskattur lækka í áföngum, um fjögur prósent, fram til ársins 2007. Stjórnvöld fullyrða að af þessu leiði umtalsverður kaupmáttarauki fyrir heimilin í landinu. Frumvarpið er nú til skoðunar hjá Alþýðusambandi Íslands en framkvæmdastjóri sambandsins, Gylfi Arnbjörnsson, segir ljóst að það verði ekki til tekjujöfnunar heldur þvert á móti. Undir það tekur hagfræðingur Félags eldri borgara, Einar Árnason, og segir að nær hefði verið að hækka skattleysismörk til að koma til móts við þá tekjuminnstu. Með því fá líka allir sömu lækkun skatta. Einar tekur dæmi af manni sem hefur 100 þúsund krónur í mánaðartekjur og gerir ráð fyrir því að þær hafi fylgt neysluverði frá árinu 1988 og geri það áfram. Hlutfall tekna sem greitt er í skatt var 0,2 prósent árið 1988 en verður 7,9 prósent árið 2007, miðað við fyrirhugaðar breytingar. Viðmið skattleysismarka valda því. Spurður hvort afnám eignarskatts komi ekki flestum til góða segir Einar það vissulega koma þeim til góða sem eigi skuldlausar eignir eða svo til. „Samkvæmt tillögunum virðist eignaskatturinn þó koma til með að hækka verulega næsta árið áður en þeir falla niður vegna þess að fasteignamatið hækkar um 14 prósent um næstu áramót, er mér sagt. Þarna er miðað við að eignamörkin hækki um þrjú prósent og það þýðir að þú ert að borga af stærri hluta eignar þinnar en áður,“ segir Einar.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×