Innlent

Sveitarfélögum fækkaði um sex

Sveitarfélögum landsins fækkaði um sex á laugardag, þegar íbúar fjögurra hreppa í Austur-Húnavatnssýslu samþykktu í kosningum sem fram fóru á laugardag að sameinast í eitt sveitarfélag auk þess sem íbúar fjögurra hreppa sunnan Skarðsheiðar samþykktu að sameinast. Hrepparnir í Austur-Húnavatnssýslu sem um ræðir eru Bólstaðarhlíðarhreppur, Svínavatnshreppur, Sveinsstaðahreppur og Torfalækjahreppur. Mest var andstaðan við sameiningu í Svínavatnshreppi, þar sem 38 samþykktu sameiningu en 29 voru á móti. 228 tóku þátt í kosningunni og af þeim sögðu 165 já en 63 vildu ekki sameiningu. Í sameinuðu sveitarfélagi verða rúmlega 400 íbúar. Útlit er fyrir að fækkun sveitarfélaga á svæðinu sé ekki lokið því samkvæmt tillögu nefndar um sameiningu sveitarfélaga er lagt til að íbúum Áshrepps, Blönduósbæjar, Höfðahrepps og Skagabyggðar verði gefinn kostur á að greiða atkvæði um sameiningu þessara fjögurra sveitarfélaga 23. apríl 2005. Fámennasta sveitarfélagið er nú Mjóafjarðarhreppur, með einungis 37 íbúa. Nefnd um sameiningu sveitarfélaga hefur lagt til að kosið verði í 80 sveitarfélögum í apríl, og ef þær sameiningar ganga eftir verða sveitarfélögin í landinu 39.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×