Innlent

Eftirlitsmenn í fjölveiðiskipum

Til greina kemur að eftirlitsmenn verði settir um borð í fjölveiðiskip til að kanna hversu algengur lax er sem meðafli í Norðurhöfum. Vitað er að hann veiðist í síldartroll, en engar tölur liggja fyrir um hversu algengt það er, né heldur hvaðan laxinn kemur. Árna Ísakssyni veiðimálastjóra bárust nafnlausar upplýsingar um að íslenskt fjölveiðiskip sem var við síldveiðar við Svalbarða hefði tekið 200 laxa í trollið, en laxveiðar eru bannaðar nánast alls staðar í Norður-Atlantshafi. Laxarnir komu á land ásamt 800 tonna síldarafla sem var landað í Noregi. Þeir vógu allt upp í tvö kíló hver og voru greinilega laxar sem eru tvö ár í sjó en sá stofn hefur hnignað mun meira en stofn smærri laxa. Sérstaka athygli vakti að einn laxanna var merktur og hafði gengið frá Drammen í Suður-Noregi. Óvíst er hvort íslenski laxinn gengur svo langt en engar rannsóknir liggja fyrir um slíkt, né heldur hversu algengur laxinn er sem meðafli. Árni segir samt að telja megi víst, fyrst þetta merki fékkst þarna og um svona marga laxa hafa verið að ræða, að þetta gerist oftar. Hann nefnir að laxar hafa fengist í hringnót við síldveiðar á síldarárunum á 7. áratugnum. Árni segir til umræðu að samræma rannsóknir í Norður-Atlantshafi, m.a. með því að hafa eftirlitsmenn um borð í fjölveiðiskipum til að kanna hversu algengur lax er sem meðafli. Veiðimálastjóri fékk einungis upplýsingar um aflatölur skipsins, sem var við veiðar árið 2002, svo ekki er vitað hversu stórt troll var notað. Vitað er að fleiri skip voru við veiðar á sama tíma en engar upplýsingar bárust af því að þau hefðu veitt laxa. Slíkar upplýsingar berast yfir höfuð ekki, þótt eftir þeim sé leitað, því málið er væntanlega viðkvæmt að sögn Árna.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×