Mexíkó vann Gullbikarinn, álfukeppni Norður- og Mið-Ameríku, í nótt eftir öruggan 3-1 sigur á Jamaíku í úrslitaleik.
Þetta er sjöundi sigur Mexíkó í Gullbikarnum en ekkert lið hefur unnið keppnina oftar.
Andres Guardado, sem var valinn besti leikmaður Gullbikarsins, kom Mexíkóum yfir á 31. mínútu með sínu sjötta marki í keppninni og á annarri mínútu seinni hálfleiks tvöfaldaði Jesus Corona forskotið. Oribe Peralta negldi svo síðasta naglann í kistu Jamaíku þegar hann skoraði þriðja mark Mexíkó á 61. mínútu.
Darren Mattocks minnkaði muninn tíu mínútu fyrir leikslok en nær komust Jamaíka-menn, sem voru í fyrsta sinn í úrslitum Gullbikarsins, ekki.
