Íslenski boltinn

Lagerbäck ráðinn landsliðsþjálfari - Heimir aðstoðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lars Lagerbåck er í höfuðstöðvum KSÍ.
Lars Lagerbåck er í höfuðstöðvum KSÍ.
Svíinn Lars Lagerbäck hefur verið ráðinn þjálfari íslenska landsliðsins og verður Heimir Hallgrímsson, fyrrum þjálfari ÍBV, aðstoðarmaður hans.

Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi KSÍ nú í hádeginu. Lars og Heimir eru viðstaddir fundinn.

„Lars er í hópi reyndustu landsliðsþjálfara Evrópu og mikill fengur að fá hann til starfa," sagði Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands.

„Við höfum líka fengið Heimi Hallgrímsson til starfa sem er góður kostur fyrir Knattspyrnusambandið. Hann hefur menntað sig mikið í þjálfarafræðum."

„Ég vil fyrst og fremst biðjast afsökunar á því að ég tali ekki íslensku. Ég er þó spenntur fyrir starfinu, þetta er heiður fyrir mig og ég hlakka mikið til. Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir íslenskri knattspyrnu," sagði Lagerbäck.

„Það er alltaf erfitt fyrir litlar þjóðir að komast á stórmót. Siggi hefur brotið ísinn með kvennalandsliðinu og af hverju ætti karlalandsliðið ekki að gera það sama. Ég er hrifinn af því að vinna, ekki tapa."

Heimir sagði líka að þetta væri heiður fyrir sig. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég starfa í kringum landslið enda var ég ekki nógu góður leikmaður til að komast í landsliðið. Það er mikill heiður að fá að starfa með Lars."
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.