Innlent

Spurði hvort hann ætti að lána ríkis­stjórninni hækjurnar eftir að þær duttu með látum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, var fljótur að hugsa þegar hækjur hans duttu í gólfið úr ræðustól á Alþingi í dag.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, var fljótur að hugsa þegar hækjur hans duttu í gólfið úr ræðustól á Alþingi í dag. Skjáskot

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, nýtti tækifærið er hækjur hans duttu í gólfið með látum í miðri ræðu hans á Alþingi, hvort hann ætti ekki að lána ríkisstjórninni hækjurnar til að halda uppi almannatryggingakerfinu.

Óundirbúinn fyrirspurnartími er nú á Alþingi og þar sat Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra meðal annars fyrir svörun. 

Guðmundur Ingi nýtti tækifærið og spurði hana út í frítekjumark almannatrygginga. Spurði hann Katrínu af hverju skerðingar á frítekjumarki færi ekki eftir launavísitölu. Vísaði hann í það að ráðherrar ríkisstjórnarinnar nýttu sér svokallaðar hækjur með því að vísa hvern á annann vegna þessa máls.

Katrín fór þá í pontu og sagði að hún gæti verið sammála Guðmundi um það að margboðuð endurskoðun á almannatryggingakerfinu hafi tekið allt of langan tíma.

Horfa má á beina útsendingu frá Alþingi hér að neðan.

Guðmundur virtist ekki vera ánægður með svör Katrínar og sagði þar sem frítekjumark fylgdi ekki launavísitölu væru auknar skerðingar á því í kortunum.

„Þetta fólk má ekki við því,“ sagði Guðmundur. Hann styðst við hækjur í þingsal og tók þær með sér upp í pontu. Er hann sleppti orðinu datt önnur hækjan og rakst í hina, sem varð til þess að þær duttu báðar í gólfið með töluverðum látum.

„Sko, hækjurnar meira segja detta. Ég ætti kannski að lána ríkisstjórninni þær til að halda uppi kerfinu.“

Katrín kom þá aftur upp í pontu og vísaði til þess að eftir áramót væri von á frumvarpi um breytingar á almannatryggingakerfinu.

Háttvirtur þingmaður getur því ekki komið hér upp og dregið þá ályktun að ekkert sé að gerast, bæði miðað við söguna og það sem framundan, sagði Katrín.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.