Fótbolti

Hákon í leikbanni og Lille stein­lá á heima­velli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson mátti ekki spila með Lille í kvöld og fjarvera hans fór ekki vel í franska liðið.
Hákon Arnar Haraldsson mátti ekki spila með Lille í kvöld og fjarvera hans fór ekki vel í franska liðið. Getty/Octavio Passos

Þriggja leikja sigurganga Lille í frönsku fótboltadeildinni endaði í kvöld með stóru tapi á heimavelli.

Stassbourg mætti til Lille og fór í burtu með öll þrjú stigin eftir 4-1 sigur.

Lille lék án íslenska landsliðsmannsins Hákons Arnar Haraldssonar sem tók út leikbann í leiknum í kvöld.

Liðið tapaði fyrsta deildarleiknum á nýju ári en var svo búið að vinna þrjá deildarleiki í röð síðan.

Stassbourg komst í 2-0 í fyrri hálfleik, fyrst skoraði Joaquin Panichelli á 25. mínútu og svo bætti Julio Enciso við marki aðeins mínútu síðar eftir stoðsendingu frá Panichelli.

Martial Godo bætti síðan við tveimur mörkum í seinni hálfleik áður en Matias Fernandez-Pardo minnkaði muninn fyrir Lille í uppbótatíma leiksins.

Lille átti möguleika á því að minnka forskot Lyon í fimmta sætinu í eitt stig en nú munar fjórum stigum á liðunum.

Stassbourg hoppaði upp í sjöunda sætið með þessum góða sigri en liðið hafði fyrir leikinn leikið fjóra deildarleiki í röð án þess að vinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×