Fótbolti

„Hann er sonur minn“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Unai Emery ýtti í Youri Tielemans, að því er virtist að ástæðulausu.
Unai Emery ýtti í Youri Tielemans, að því er virtist að ástæðulausu. Burak Kara - UEFA/UEFA via Getty Images

Unai Emery gerði lítið úr atviki sem átti sér stað undir lok leiks Aston Villa og Fenerbahce í Evrópudeildinni í gærkvöldi, þegar hann neitaði að taka í höndina á miðjumanninum Youri Tielemans.

Tielemans var tekinn af velli á 92. mínútu í stöðunni 1-0 fyrir Aston Villa. Hann skokkaði út af og rétti fram höndina, en Emery vildi ekki taka í höndina á honum og ákvað frekar að ýta honum í bringuna.

„Hann er sonur minn“ sagði Emery brosandi við TNT Sports eftir leik og vildi ekki fara nánar út í atvikið.

„Þetta er kannski alveg saklaust, en ég er alls ekki hrifinn af þessu“ svaraði Jolean Lescott, sérfræðingur TNT Sports á leiknum í gærkvöldi.

„Alveg sama hvers vegna þetta var. Ef við snúum dæminu við og leikmaðurinn hefði neitað að taka í höndina á þjálfara, þá væru allir brjálaðir og hans hugarfar og fagmennska væru dregin í efa. Ég er viss um að þetta var saklausara en það lítur út fyrir að vera, en ég er alls ekki hrifinn af þessu“ bætti Lescott við.

Unai Emery var að stýra sínum hundraðasta leik í Evrópudeildinni í gær en hann er sigursælasti knattspyrnustjóri í sögu keppninnar. Aston Villa komst með sigrinum gegn Fenerbahce beint áfram í sextán liða úrslit og stefnan hjá Emery er sett á fimmta Evrópudeildartitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×