Innlent

Metfjöldi vill stíga á svið með Ís­lenska dans­flokknum

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, listdansstjóri Íslenska dansflokksins, er himinlifandi með viðtökurnar.
Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, listdansstjóri Íslenska dansflokksins, er himinlifandi með viðtökurnar. vísir/Lýður

Hátt í eitt þúsund sóttu um að komast í áheyrnaprufu sem Íslenski dansflokkurinn auglýsti. Listdansstjóri segir fjölda umsókna langt um fram það sem áður hefur sést og til marks um velgengni flokksins á alþjóðavísu.

Íslenski dansflokkurinn lagði á dögunum út net og auglýsti áheyrnaprufu fyrir framtíðarverkefni flokksins. Auglýsingu var meðal annars komið fyrir á erlendum síðum til að ná til dansara víðar en á Íslandi og óhætt er að segja að bitið hafi á agnið. Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, listdansstjóri Íslenska dansflokksins, segir níu hundruð og fjörutíu umsóknir hafa borist.

„Þetta var bara svona tala sem að maður hefur ekki séð. Þannig að við tók að fara yfir níu hundruð og fjörutíu umsóknir og vídeó frá dönsurum víðs vegar um heiminn.“

Úr sýningunni Flóðreka eftir Aðalheiði Halldórsdóttur og Jónsa í Sigurrós.vísir/aðsend

Fjörutíu og fimm umsóknir bárust frá íslenskum dönsurum en aðrar, tæplega níu hundruð frá erlendum. Lovísa segir viðtökurnar hafa komið á óvart.

„Við erum búin að vera rosalega að klóra okkur í hausnum yfir þessu. Við höfum oft talað um að Íslenski dansflokkurinn er eiginlega töluvert þekktari erlendis en hérlendis og þetta bara svolítið styður þá kenningu. Það er bara ótrúlega mikill heiður og svona ákveðin viðurkenning að finna hvað það eru margir sem að vilja flytja til Íslands til þess að vinna fyrir Íslenska dansflokkinn.“

Ljóst er að mikill niðurskurður er fram undan en áheyrnarprufur fara fram í lok febrúar og um tuttugu og fimm til þrjátíu verða boðaðir í lokaprufur. Að minnsta kosti ein full staða er í boði og svo fleiri sem verða í kringum ákveðin verkefni.

Dansverkið Garðurinn eftir þá Antonio de Rosa og Mattia Russo verður frumsýnt í febrúar. vísir/aðsend

Lovísa segir spennandi tíma fram undan hjá flokknum en verið var að bæta við aukasýningum á verkinu Flóð/Rek vegna mikillar aðsóknar. Þá eru fram undan sýningar á verkinu Garðinum sem verður frumsýnt þann. 7. febrúar.

„Við ætlum að tyrfa Stóra sviðið og þetta verður mikið sjónarspil og nýtt krydd í það sem er búið að vera í gangi hér á Íslandi. Þannig að það verður gaman fyrir áhorfendur og bara dansinn í heild sinni að fá þetta verk á fjalirnar,“ segir Lovísa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×