City fékk skell í Noregi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kasper Høgh skoraði tvennu fyrir Bodø/Glimt.
Kasper Høgh skoraði tvennu fyrir Bodø/Glimt. Michael Regan - UEFA/UEFA via Getty Images

Manchester City fékk óvæntan skell er liðið heimsótti Bodø/Glimt í næstsíðustu umferð deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Gestirnir í City voru meira með boltann í upphafi leiks, en eins og oft hefur sannast þá er það ekki fyrir hvaða lið sem er að heimsækja Bodø/Glimt á gervigrasið á norðurhjara veraldar.

Kasper Høgh kom heimamönnum yfir með marki á 22. mínútu og bætti öðru marki við aðeins tveimur mínútum síðar.

Þetta reyndust einu mörk fyrri hálfleiksins og staðan því 2-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Ensku gestirnir þurftu því að finna leiðir til að snúa taflinu við í seinni hálfleik, en ekki batnaði staðan fyrir liðið þegar Jens Petter Hauge kom heimamönnum í 3-0 með stórglæsilegu marki á 58. mínútu.

Rayan Cherki minnkaði hins vegar muninn fyrir City tveimur mínútum síðar, en aðeins tveimur mínútum eftir það nældi Rodri sér í sitt annað gula spjald á stuttum tíma og þar með rautt.

Liðsmenn Manchester City þurftu því að leika manni færri það sem eftir lifði leiks og brekkan orðin ansi brött.

Ekki tókst gestunum að komast upp brekkuna og niðurstaðan varð að lokum heldur óvæntur 3-1 sigur Bodø/Glimt, sem nú er með sex stig eftir sjö leiki í 25. sæti Meistaradeildarinnar, einu stigi frá umspilssæti.

Manchester City er hins vegar með 13 stig í fjórða sæti og er svo gott sem búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira