Fótbolti

Stórleikur hjá Rabiot í mikil­vægum sigri AC Milan

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Adrien Rabiot var allt í öllu hjá AC Milan.
Adrien Rabiot var allt í öllu hjá AC Milan. Claudio Villa/AC Milan via Getty Images

AC Milan sótti 3-1 sigur gegn Como í 16. umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar. Adrien Rabiot fiskaði víti fyrir Mílanómenn í fyrri hálfleik og skoraði síðan tvennu í seinni hálfleik.

Marc-Oliver Kempf kom heimamönnum Como yfir á 10. mínútu en Christopher Nkunku jafnaði metin fyrir AC Milan með marki úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Þetta var hans þriðja mark í síðustu þremur leikjum.

Adrien Rabiot, sem fiskaði vítaspyrnuna, setti svo tvö mörk í seinni hálfleik til að tryggja sigurinn. Bæði mörkin voru skoruð með stórbrotnum skotum.

Hið fyrra á 55. mínútu, þegar Rabiot tók boltann niður með bringunni og klippti hann í netið. Hið seinna á 88. mínútu, þegar Rabiot vann boltann af varnarmönnum og þrumaði honum af löngu færi í netið.

AC Milan komst þar með aftur á sigurbraut eftir jafntefli í síðustu leikjum gegn fallbaráttuliðum Fiorentina og Genoa.

Þremur stigum munar á Mílanó-liðunum en Inter er á toppnum með 46 stig, AC Milan er með 43 stig og Napoli fylgir fast á eftir með 40 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×