Innlent

Kallar full­trúa sendi­ráðsins á teppið: „Mér er ekki skemmt“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur engann húmor fyrir því að grínast sé með að Ísland verði 52. ríki Bandaríkjanna.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur engann húmor fyrir því að grínast sé með að Ísland verði 52. ríki Bandaríkjanna. Vísir/Vilhelm

Fulltrúi bandaríska sendiráðsins á Íslandi hefur verið kallaður á teppið í utanríkisráðuneytinu í dag þar sem hann verður krafinn skýringa um meint ummæli mögulegs sendiherraefnis Bandaríkjanna gagnvart Íslandi. Skorað hefur verið á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra að bregðast við vegna brandara Billy Long um að gera ætti Ísland að 52. ríki Bandaríkjanna.

Bandaríkjastjórn hefur tilnefnt Long sem sendiherra á Íslandi en hann hefur þó enn ekki verið skipaður. Hann ku hafa látið brandarann falla í samtali við bandaríska þingmenn, en hefur síðan beðist afsökunar á ummælunum.

Þorgerður Katrín var til viðtals í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag þar sem málið barst meðal annars í tal og hún spurð hvort hún sem utanríkisráðherra ætli með einhverjum hætti að bregðast við.

„Já, við erum að fá fulltrúa bandaríska sendiráðsins hingað á fund til okkar í dag. Við viljum fá skýra mynd af þessu. Hvort þessi orð hafi verið látin falla eða í hvaða umhverfi þetta gerðist. Mér er ekki skemmt ef að þetta er rétt. En ég held að í öllu þessu umróti sem er í dag þá skipti miklu máli að vera með skýrar upplýsingar, skýra mynd af því sem gert hefur verið, sagt hefur verið, og það er það sem að við viljum fá frá sendiráðinu,“ svaraði Þorgerður.

Innt eftir svörum við því hvaða þýðingu það hefði ef umrædd ummæli væru rétt, kvaðst Þorgerður ekki ætla að fara í neinar „digrar yfirlýsingar“ um eitthvað sem enn væri óljóst. „En það er alveg ljóst að ef að þetta hefur átt að vera einhver húmor, þá er mér ekki skemmt. Og það er náttúrlega yfirgengilegt á þessum tímum líka að vera að gera grín að og skopast með fullveldi þjóða.“

Markmiðið sé að fá skýrari upplýsingar frá fulltrúa bandaríska sendiráðsins og síðan verði tekin afstaða í framhaldinu.

Málefni Grænlands og endurteknar hótanir Trump-stjórnarinnar um að Bandaríkin verði að eignast Grænland voru einnig rædd við ráðherrann, sem segir mjög miður að þessi staða sé komin upp á milli bandalagsríkja,

„Auðvitað hefur maður haft áhyggjur af framvindunni og við Íslendingar höfum auðvitað verið skýr þegar kemur að Grænlandi, að við sýnum órofa samstöðu með Grænlandi og konungsríkinu Danmörku,“ sagði Þorgerður.

Hún fagnar hún þeirri samstöðu sem Norðurlönd og aðrar þjóðir hafa sýnt Grænlandi og að þegar hafi fjöldi ríka innan Atlantshafsbandalagsins boðað þátttöku í efldum vörnum og varnaræfingum í og við Grænland. Þá sé jákvætt í sjálfur sér að settur verði á fót starfshópur bandarískra, grænlenskra og danskra embættismanna og þannig sé komið á stað formfastari farvegi fyrir samtal á milli ríkjanna, þrátt fyrir djúpstæðan ágreining um Grænland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×