Innlent

Breytt hlut­verk hjá Flokki fólksins: „Það eru tíma­mót hjá ríkis­stjórninni okkar“

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Tómas Arnar Þorláksson skrifa
Frá kosningavöku Flokks fólksins 2024.
Frá kosningavöku Flokks fólksins 2024. Vísir/Vilhelm

Sigurjón Þórðarson verður formaður fjárlaganefndar og Ásthildur Lóa Þórsdóttir verður nýr þingflokksformaður Flokks fólksins eftir breytingar sem gerðar verða á ráðherraliði flokksins. Á móti tekur Lilja Rafney Magnúsdóttir við formennsku í atvinnuveganefnd af Sigurjóni. Stefnt er að því að Ragnar Þór Ingólfsson taki embætti félags- og húsnæðismálaráðherra á ríkisráðsfundi um helgina og þá tekur Inga Sæland alfarið yfir embætti mennta- og barnamálaráðherra eftir brotthvarf Guðmundar Inga Kristinssonar úr ráðherrastóli.

Þetta staðfesti Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við fréttastofu nú í morgun. 

Klippa: Inga Sæland kynnir breytingarnar

Í gærkvöldi lá fyrir að Guðmundur Ingi Kristinsson myndi ekki snúa aftur í embætti mennta- og barnamálaráðherra, en hann er nú að jafna sig af veikindum og mun þá snúa aftur til starfa sem þingmaður flokksins. Inga tekur við af Guðmundi Inga sem mennta- og barnamálaráðherra eftir afsögn Guðmundar og í staðinn tekur Ragnar Þór Ingólfsson, þingflokksformaður Flokks fólksins og formaður fjárlaganefndar, við af Ingu sem félags- og húsnæðismálaráðherra. Ragnar kemur þannig nýr inn í ríkisstjórn.

Sjá einnig: Brösug og stutt ráð­herra­tíð Guð­mundar Inga

„Það eru tímamót hjá ríkisstjórninni okkar,“ sagði Inga í samtali við blaðamenn nú í morgun um leið og hún útskýrði þær breytingar sem verða á hlutverkaskipan hjá flokknum. „Ragnar er hokinn af reynslu,“ sagði Ingu sem benti á að Ragnar hafi mikla reynslu bæði hvað varðar vinnumarkaðs- og húsnæðismál. Eyjólfur Ármannsson eignaðist barn í gær en þangað til hann snýr aftur úr foreldraorlofi á næstu vikum mun Inga áfram gegna embætti innviðaráðherra á meðan Eyjólfur er enn fjarverandi.

„Við teljum að við séum að skipa gott lið,“ sagði Inga.

Hún kveðst spennt að taka við embætti mennta- og barnamálaráðherra og hlakki til að kynna sér verkefni ráðuneytisins. „Hér er amma komin upp á dekk,“ sagði Inga glöð í bragði um það nýja verkefni sem hún mun taka sér fyrir hendur.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×