Fótbolti

Albert snuðaður um sigur­mark

Sindri Sverrisson skrifar
Moise Kean og Albert Guðmundsson glaðbeittir eftir mark Alberts í kvöld.
Moise Kean og Albert Guðmundsson glaðbeittir eftir mark Alberts í kvöld. Getty

Albert Guðmundsson kom Fiorentina í 2-1 gegn Lazio á útivelli í kvöld, rétt fyrir leikslok, en horfði svo á liðsfélaga sína missa leikinn niður í jafntefli í blálokin.

Albert skoraði úr vítaspyrnu á 89. mínútu, þó að Ivan Provedel færi reyndar í rétt horn og væri nálægt því að verja.

Alberti var svo skipt af velli á annarri mínútu uppbótartíma og gat því ekkert gert við því þegar heimamenn fengu vítaspyrnu þremur mínútum síðar, sem Pedro skoraði úr og tryggði Lazio stig.

Lazio hafði komist yfir í byrjun seinni hálfleiks en Robin Gosens jafnaði metin á 56. mínútu.

Stigið í kvöld hjálpar þó Fiorentina í fallbaráttunni og er liðið nú með 13 stig eftir 19 leiki, í þriðja neðsta sæti. Lazio er í 9. sæti með 25 stig.

Inter styrkti stöðu sína á toppnum með 2-0 útisigri gegn Parma, þar sem Federico Dimarco skoraði í lok fyrri hálfleiks og Marcus Thuram svo í lok leiks.

Inter er nú með 42 stig, fjórum stigum á undan AC Milan sem á leik til góða og einnig fjórum á undan Napoli sem varð að sætta sig við 2-2 jafntefli gegn Verona eftir að hafa lent 2-0 undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×