Fótbolti

Real Madrid fær króatískan lækni til að bjarga málum

Sindri Sverrisson skrifar
Kylian Mbappé gæti grætt á nýjustu ráðningu Real Madrid.
Kylian Mbappé gæti grætt á nýjustu ráðningu Real Madrid. Getty/Angel Martinez

Eftir að franska fótboltastjarnan Kylian Mbappé bættist á meiðslalistann hjá Real Madrid hefur spænska stórveldið nú tilkynnt um veigamikla breytingu á sjúkrateymi sínu.

Mbappé missti af 5-1 sigrinum gegn Real Betis í gær, þar sem hinn 21 árs gamli Gonzalo Garcia stal senunni og skoraði þrennu. Frakkinn er meiddur í hné og mun hafa verið að pína sig í gegnum meiðsli í umtalsverðan tíma, þó að hann hafi vart misst af leik og skorað 18 mörk í spænsku deildinni, tvö í spænska bikarnum og níu í Meistaradeild Evrópu.

Ekki er búist við því að Mbappé verði lengi frá keppni en samkvæmt AS eru meiðsli hans hins vegar þau 23. hjá Real Madrid á leiktíðinni.

Forráðamenn félagsins sáu því ekki annan kost í stöðunni en að gera breytingar, eftir tvö slæm ár hvað meiðsli varðar, og hafa nú fengið króatíska lækninn Niko Mihic til að hafa yfirumsjón með öllum sjúkramálum félagsins.

Mihic hefur áður starfað fyrir Real þegar Zinedine Zidane og Carlo Ancelotti stýrðu liðinu, og veitt ráðgjöf til félagsins síðustu ár samhliða fræðastörfum og störfum á einkastofu.

Núna mun hann hins vegar alfarið einbeita sér að Real Madrid og samkvæmt AS hefur forseti félagsins, Florentino Pérez, tröllatrú á Mihic í von um að meiðsli hafi sem allra minnst áhrif á leikmannahóp Xabi Alonso.

Real spilar næst gegn erkifjendum sínum í Atlético Madrid, í undanúrslitum spænska ofurbikarsins á fimmtudaginn, og gæti svo mögulega mætt Barcelona í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×