Fótbolti

Lang­þráð stund hjá Orra þegar Sociedad tók stig af Atletico

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson er mættur á ný inn á völlinn sem eru góðar fréttir fyrir bæði Real Sociedad og íslenska landsliðið.
Orri Steinn Óskarsson er mættur á ný inn á völlinn sem eru góðar fréttir fyrir bæði Real Sociedad og íslenska landsliðið. Getty/Masashi Hara

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson lék í kvöld sinn fyrsta leik fyrir aðallið Real Sociedad síðan í ágústmánuði.

Orri Steinn kom inn á sem varamaður í 1-1 jafntefli Real Sociedad á heimavelli á móti Atletico Madrid í spænsku deildinni.

Orri spilaði síðustu tvær mínútur leiksins en hann hafði ekki spilað með aðalliðinu síðan 30. ágúst.

Orri skoraði eitt mark í fyrstu þremur deildarleikjunum en meiddist svo sem hefur haldið honum frá keppni í fjóra mánuði.

Alexander Sörloth kom Atletico í 1-0 á 50. mínútu með skalla eftir sendingu frá Giuliano Simeone en aðeins fimm mínútum síðar jafnaði Goncalo Guedes eftir sendingu frá Takefusa Kubo.

Orri kom inn fyrir Brais Méndez á 88. mínútu en Méndez byrjaði í framlínunni við hlið Mikel Oyarzabal.

Real Sociedad er í fimmtánda sæti en aðeins tveimur stigum frá fallsæti. Atletico Madrid er í fjórða sæti en hefði farið upp í það þriðja með sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×