Innlent

Sauð­burður er hafinn í Helga­fells­sveit

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Heiða Ösp Sturludóttir, kærasta Guðmundar Karls með hrútinn Tígul og ærin Svanhildur fylgist vel með en hún bar honum í morgun.
Heiða Ösp Sturludóttir, kærasta Guðmundar Karls með hrútinn Tígul og ærin Svanhildur fylgist vel með en hún bar honum í morgun. Aðsend

„Lambið kom í heiminn í morgun okkur öllum á óvörum en svona er lífið í sveitinni, alltaf eitthvað spennandi að gerast. Ærin heitir Svanhildur, lambið heitir Tígull og faðirinn heitir Máni. Svanhildur bar snemma í morgun,” segir Guðmundur Karl Magnússon á bænum Gríshóli í Helgafellsveit á Snæfellsnesi aðspurður um lambið, sem fæddist þar snemma í morgun, 4. janúar, sem er mjög óvenjulegur tími fyrir sauðburð, sem er jú alltaf á vorin.

Guðrún Reynisdóttir, mamma Guðmundar Karls, er aðalbóndinn á bænum en hann er duglegur að aðstoða hana við búskapinn en á bænum eru um 340 vetrarfóðraðar ær.

Guðmundur Karl með fallega hrútinn, sem er mókrúnóttur.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Ástæðan fyrir lambinu núna eru frjálsar ástir á fjalli í ágúst og niðurstaðan er þessi fallegi mókrúnótti hrútur“, bætir Guðmundur Karl hlæjandi við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×