Enski boltinn

„Þetta er rebbabragð sem ég vissi nú reyndar ekki að hann kynni“

Sindri Sverrisson skrifar
Rayan Cherki skoraði og lagði upp fyrir Manchester City í sigrinum gegn Nottingham Forest um helgina.
Rayan Cherki skoraði og lagði upp fyrir Manchester City í sigrinum gegn Nottingham Forest um helgina. Getty/Clive Mason

Manchester City skoraði sigurmark gegn Nottingham Forest sem virtist koma beint af æfingasvæðinu. Í Sunnudagsmessunni fékk City-liðið hrós og menn voru ánægðir með að dómari leiksins skyldi ekki falla fyrir „rebbabragði“ Morgan Gibbs-White.

Sigurmarkið kom úr hornspyrnu yfir á fjærstöng þar sem Josko Gvardiol skallaði boltann niður og út í teiginn, á Rayan Cherki sem hafði gott svæði og þrumaði í markið.

„Þetta er klárlega beint af æfingasvæðinu. Þetta er teiknað upp og mér finnst maður sjá það á því hvað allir verða glaðir. Það er ekki til betri tilfinning hjá þjálfurum og leikmönnum en þegar eitthvað sem er svo leiðinlegt að æfa [gengur svona upp],“ sagði Kjartan Henry Finnbogason í Messunni.

Klippa: Messan - Sigurmarkið hjá City

Kjartan benti líka á að þó að Sean Dyche, stjóri Forest, hefði kvartað yfir því að markið fengi að standa þá hefði ekki verið nein ástæða til þess að dæma aukaspyrnu.

„Forest-menn voru mjög ósáttir með að það væri brotið á Gibbs-White, og það leit þannig út. En gamlir refir eins og ég… ég sé alveg hvað Gibbs er að gera. Hann tekur gömlu góðu klemmuna og hendir sér niður, og lætur þannig líta út fyrir að það sé verið að hrinda honum eða toga hann niður. Þetta er rebbabragð sem ég vissi nú reyndar ekki að hann kynni,“ sagði Kjartan léttur.

Með 2-1 sigrinum gegn Forest er City aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Arsenal sem tekur á móti Aston Villa í kvöld. City á næst leik við Sunderland á nýársdag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×