Innlent

Segir dulda skatta­hækkun taka gildi á næsta ári

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforingi.
Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforingi. Vísir/Vilhelm

Vilhjálmur Birgisson, formaður starfsgreinasambandsins, segir duldar skattahækkanir á launafólk leynast víða, og verkalýðshreyfingin eigi aldrei að láta þær líðast. Ein slík taki gildi á næsta ári, þegar persónuafsláttur hækkar ekki í takt við launavísitölu.

„Já, þær leynast víða skattahækkanir á launafólk – skattahækkanir sem fólk tekur ekki strax eftir. Ein þeirra blasir nú við í tekjuskattinum,“ segir Vilhjálmur í færslu á samfélagsmiðlum.

„Persónuafsláttur hækkar um 5,53%, á meðan 12 mánaða launavísitala hefur hækkað um 7,5%. Þegar persónuafsláttur og skattþrep fylgja ekki launaþróun er niðurstaðan einföld: ríkið tekur stærra hlutfall af launum fólks. Það er ekkert annað en skattahækkun, sama hvað hún er kölluð.“

Hækkar í takt við vísitölu neysluverðs

Í síðustu viku var tilkynnt um breytingar á staðgreiðslu skatta um áramótin, en lögum samkvæmt hækkar persónuafsláttur og þrepamörk tekjuskatts einstaklinga í upphafi hvers árs sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði, að viðbættri hækkun vegna framleiðnivaxtar.

„Hækkun vísitölu neysluverðs liggur nú fyrir og nemur hún 4,5% á 12 mánaða tímabili. Heildarhækkun viðmiðunarfjárhæða verður því 5,5%,“ stóð í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Vilhjálmur Birgisson segir að þar sem persónuafslátturinn hækkar minna en launavísitalan sé skattbyrði launafólks aukin í reynd.

„Á heimili þar sem bæði hjón eru með 850 þúsund krónur í mánaðarlaun, þýðir þessi duldna skattahækkun að yfir 140–160 þúsund krónur á ári færast frá heimilinu til ríkisins – vegna þess að persónuafsláttur og skattþrep hækkuðu ekki til samræmis við launavísitölu.“

„Verkalýðshreyfingin á aldrei að láta slíkar duldar skattahækkanir líðast. Launabarátta missir gildi sitt ef ríkið étur launahækkanir fólks aftan frá með skattaskriði. Ef skattkerfið fylgir ekki launaþróun, þá er verið að hækka skatta – punktur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×