Innlent

Sósíal­istar líta til harðstjórnarríkja sem fyrir­mynda

Kjartan Kjartansson skrifar
Bæði Sæþór Benjamín Randalsson og Karl Héðinn Kristjánsson, hafa lýst aðdáun á afrekum kínverska kommúnistaflokksins á undanförnum mánuðum. Sæþór taldi Íslendinga heppna að hafa leiðtoga eins og Xi Jinping, Kim Jong-un eða Vladímír Pútín fyrir tveimur árum.
Bæði Sæþór Benjamín Randalsson og Karl Héðinn Kristjánsson, hafa lýst aðdáun á afrekum kínverska kommúnistaflokksins á undanförnum mánuðum. Sæþór taldi Íslendinga heppna að hafa leiðtoga eins og Xi Jinping, Kim Jong-un eða Vladímír Pútín fyrir tveimur árum. Vísir

Forsvarsmenn Sósíalistaflokksins hafa ausið ríki með gerræðislegt stjórnarfar eins og Kína, Norður-Kóreu og Rússland lofi á undanförnum misserum. Formaðurinn segir það bull að Ísland sé hluti af lýðræðisríkjum í heiminum og að „sjúkir“ fjölmiðlar ljúgi upp á óvini Bandaríkjastjórnar.

Tæpu einu og hálfu ári áður en hann var kjörinn formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands á hitafundi í vor tók Sæþór Benjamín Randalsson til varna fyrir Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, Xi Jinping, forseta Kína og Vladímír Pútín, forseta Rússlands, á samfélagsmiðli.

„Hugmyndin að þetta séu vondir leiðtogar (eða Assad) er hreinn vestrænn áróður. Við værum mjög heppin að fá þá sem leiðtoga í stað hinna ólýðræðislegu trúða á þingi,“ skrifaði Sæþór og bætti Bashar al-Assad, þáverandi forseta Sýrlands, við hópinn í athugasemd við færslu á því sem þá hét Sósíalistaspjallið á Facebook. 

Skjáskot af athugasemd Sæþórs Benjamíns Randalssonar við færslu um leiðtoga Kína, Rússlands og Norður-Kóreu á því sem hét þá Sósíalistaspjallið í september 2023.Skjáskot

Þetta var í september árið 2023, einu og hálfu ári eftir allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu. Rökstuddi Sæþór það meðal annars með því að bæði Rússland og Norður-Kórea fjárfestu í innviðum sínum fyrir landsmenn.

„Xi er bókstaflega besti leiðtogi jarðar,“ skrifaði Sæþór ennfremur og vísaði til þess að lífsgæði hefðu aukist upp úr öllu valdi í stjórnartíð kínverska forsetans.

Frá því að Sæþór og félagar tóku við völdum í Sósíalistaflokknum hafa þeir mært Kína og talað um að Íslendingar gætu lært margt af kínverska kommúnistaflokknum um hvernig ætti að bæta hag borgaranna.

Einn stjórnenda flokksins ferðaðist einnig nýlega til Norður-Kóreu til að tala á hátíðarhöldum vegna afmælis Verkamannaflokksins sem fer með öll völd í landinu. Hann dásamaði í kjölfarið mikinn „uppgang“ í alræðisríkinu. Sami maður endurtók áróður Rússa um rætur innrásar þeirra í Úkraínu áður en hann ferðaðist á ráðstefnu í Sotsjí í Rússlandi í fyrra.

Í viðtali við Vísi segist Sæþór ekki hafa áhyggjur af stöðu mannréttindamála utan Vesturlanda, hafnar því að stjórnarfar á Íslandi sé lýðræðislegt og segir að fjölmiðlar tali illa um ráðamenn í Kína, Rússlandi og Norður-Kóreu vegna þess að þeir gangi erinda bandarískrar heimsvaldastefnu.

Vilja taka sér Kína til fyrirmyndar

Bæði Sæþór og Karl Héðinn Kristjánsson, félagi hans í framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins, hafa verið gestir í kínverska sendiráðinu í Reykjavík á þessu ári og dásamað kínversk stjórnvöld á sama tíma. Sendiráðið er til húsa við hliðina á skrifstofum stéttarfélagsins Eflingar sem þeir hafa báðir starfað fyrir.

Það vakti ekki sérstaklega mikla athygli þegar Sæþór greindi frá heimsókn sinni í kínverska sendiráðið í samfélagsmiðlafærslu um miðjan maí. Hann var þá stjórnarmaður í stéttarfélaginu Eflingu en var nokkrum dögum síðar kjörinn formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.

„Kína og afrek þess undir forystu [Kommúnista]flokksins hafa verið innblásandi að fylgjast með og erlendir sendiherrar þeirra, allir meðlimir flokksins, eru mjög fagmannlegir í starfi sínu. Ísland gæti lært margt af því hvernig á að beisla framleiðsluafl þjóðarinnar til að nota til að bæta hag allra borgara,“ skrifaði Sæþór við mynd af sér með He Rulong, kínverska sendiherranum.

Sæþór með He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi í kínverska sendiráðinu í maí, skömmu fyrir átakafund hjá Sósíalistaflokk Íslands þar sem Sæþór og félagar komust til valda.Sæþór Benjamín Randalsson

Karl Héðinn lofaði einnig efnahagslegan árangur Kína í hástert í aðsendri grein á Vísi í október.

„Á undanförnum áratugum hefur Kína náð árangri sem á sér fáar hliðstæður í sögunni. Kínverjum hefur tekist að lyfta yfir 800 milljónum manna úr fátækt, byggja upp öfluga innviði og þróa nýja tækni á fordæmalausum hraða. Þessi árangur sýnir að samstillt samfélag, með skýra langtímasýn í þágu almannahagsmuna, getur unnið söguleg afrek,“ skrifaði hann.

Grein Karls Héðins birtist eftir að hann og Sæþór mættu í kínverska sendiráðið til að fagna 76 ára afmæli kínverska alþýðulýðveldisins og stjórnartíð kommúnistaflokksins.

Á smáláni til Norður-Kóreu

Kristinn Hannesson, einn fulltrúa í kosningastjórn Sósíalistaflokksins, vakti athygli í haust fyrir ferðalag sitt til Norður-Kóreu þar sem hann sótti málþing í tilefni áttatíu ára afmælis Verkamannaflokks landsins. Hann sagði Heimildinni að hann hefði tekið smálán til að fjármagna ferðina sem hefði ekki verið á vegum Sósíalistaflokksins.

Hafnaði Kristinn því í viðtalinu við Heimildina að Norður-Kórea væri einræðisríki.

„Mannréttindi eru ... Það eru alls konar ríki sem brjóta mannréttindi. Ísland brýtur mannréttindi í fangelsunum, við notum of mikla einangrunarvist. Ísrael fremur þjóðarmorð. En það sem er sagt er sagt án skoðunar. Fólk hefur ekki farið inn í landið og skoðað. Það er verið að notast við gamlar skýrslur,“ sagði Kristinn við Heimildina en hann er jafnframt aðalritari Vinafélags Íslands og Kóreu.

Í fyrra ferðaðist Kristinn á ungmannaráðstefnu sem var haldin í Sotsjí í Rússlandi en Pútín ávarpaði hana meðal annars.

Í viðtali við Karl Héðin á Samstöðinni endurtók Kristinn sjónarmið Rússa um innrásina í Úkraínu. Vestræn ríki bæru mikla ábyrgð á stríðinu, Úkraína væri krökk af nasistum og að þeir hefðu átt upphafið að mótmælunum miklu sem hröktu Viktor Janúkovitsj, bandamann Pútín, frá völdum árið 2014.

Forvitnir um önnur kerfi en kapítalisma

Sæþór segir í viðtali við Vísi að áhugi sósíalista á löndum eins og Kína og Norður-Kóreu skýrist af forvitni um hvernig öll kerfi heimsins vinni, ekki bara Kína heldur einnig Víetnam þar sem hagvöxtur sé mun meiri en á Vesturlöndum. Sjálfur dáist hann að því hvernig Kína beiti samfélagslegu afli sínu til að byggja upp í stað þess að brjóta niður.

„Svo þetta er af því að við erum forvitin um öll kerfi, sérstaklega kerfi sem byggist ekki bara á kapítalisma eins og við erum með hér á Íslandi. Þetta er ekkert sérstaklega um Norður-Kóreu eða Kína,“ segir formaðurinn sem nefnir einnig Afríkuþjóðir eins og Malí, Níger og Búrkínu Fasó. Meira um það síðar.

Xi Jinping, forseti Kína, á góðri stundu með Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands. Xi hefur verið forseti Kína frá 2013 en hann hefur fest völd sín í sessi á undanförnum árum.Vísir/EPA

Hagvaxtartölur eru eitt. Hafið þið engar áhyggjur af stöðu mannréttinda og tjáningarfrelsis í þessum löndum, sérstaklega í Kína og Norður-Kóreu?

„Ég hef áhyggjur af tjáningarfrelsi í vestrænum löndum. Það eru þrjátíu manneskjur handteknar á hverjum degi í Bretlandi fyrir samfélagsmiðlakomment. Þeir eru að handtaka fólk í Þýskalandi og taka tæki frá þeim fyrir að styðja Palestínu. Evrópusambandið er að setja refsiaðgerðir á hermann á eftirlaunum af því að hann var að deila skoðun sem þeir eru ekki sammála.“*

Kínversk stjórnvöld loka fyrir aðgang þegna sinna að vestrænum samfélagsmiðlum eins og Facebook, Youtube og X en internetið í heild er vandlega ritskoðað þar, þar á meðal leitarvélin Google.

Í athugasemd eftir að fréttin birtist tók Sæþór fram að hann hefði átt við Jacques Baud, svissneskan uppgjafarofursta, og Nathalie Yamb, svissneskan áhrifavald af kamerúnskum ættum, þegar hann vitnaði til refsiaðgerða ESB.

Baud þessi kemur reglulega fram í rússneskum ríkismiðlum og hefur meðal annars haldið því fram að Úkraínumenn hafi á einhvern hátt sviðsett innrás Rússa til þess að komast í Atlantshafsbandalagið.

Yamb var bannað að koma til ríkja ESB í apríl vegna þátttöku hennar í upplýsingahernaði Rússa gegn Evrópu og Afríku. Hún tengist Wagner-málaliðasveitinni og var svokallaðar utanaðkomandi eftirlitsmaður þegar Rússar héldu ólögmætar þjóðaratkvæðagreiðslur um innlimun hernuminna héraða í Úkraínu árið 2022.

Karl Héðinn Kristjánsson (lengr til vinstri) og Sæþór Benjamín Randalsson (framarlega fyrir miðju) á viðburði til að fagna afmæli kínversku kommúnistastjórnarinnar í kínverska sendiráðinu í haust.Karl Héðinn Kristjánsson

Á meðal annarra sem ESB lagði refsiaðgerðir á í desember var John Mark Dougan, bandarískur fyrrverandi landgönguliði og aðstoðarlögreglustjóri á Flórída. Hann flúði ákærur fyrir fjárkúgun og fleiri brot til Rússlands og hlaut hæli þar.

Washington Post sagði frá því í fyrra að evrópskar leyniþjónustustofnanir teldu Dougan hafa unnið við að framleiða og dreifa upplýsingafalsi til að grafa undan forsetaframboði Kamölu Harris í bandarísku forsetakosningunum á vegum rússnesku herleyniþjónustunnar GRU.

Dougan er meðal annars sagður hafa framleitt svokallaðar djúpfalsanir með gervigreind sem var dreift á vefsíðum sem voru látnar líta út eins og raunverulegar fréttasíður.

„Sjúkir“ fjölmiðlar endurtaki lygar og áróður

Finnst þér þá persónulega að það sé sambærileg staða [varðandi mannréttindi] í Bretlandi og Þýskalandi annars vegar og Norður-Kóreu og Kína hins vegar?

„Við erum ekki með réttar upplýsingar, ekki um Ísrael, ekki um Palestínu, ekki um Bretland. Þeir fela þegar franska lögreglan drepur fólk og tala um Hong Kong mótmælin þegar enginn var drepinn,“ segir Sæþór.

„Svo það er ekki eins og við séum með réttar upplýsingar um öll lönd í heimi. Við erum með mjög sjúka fjölmiðla sem eru oft að endurtaka lygi og áróður Bandaríkjanna.“

Pútín faðmar Kim Jong-un. Sá síðarnefndi hefur fært þeim fyrrnefnda hermenn til að berjast gegn Úkraínumönnum.Vísir/EPA

En þetta svarar ekki beint hvernig staðan er í þessum ríkjum sem ég nefndi.

„Ég er ekki stressaður um mannréttindabrot í öðrum löndum. Ég er of upptekinn af okkur hér á Íslandi með Bandaríkjunum, með löndum sem við erum í bandalagi við. Ég held að þessi hugmynd sé bara notuð sem vopn svo að venjulegt fólk sé ekki forvitið um Kína eða önnur lönd.“

Trúir ekki að brotið sé á úígúrum

Sæþór víkur að umræðu um mannréttindabrot kínversku kommúnistastjórnarinnar á þjóðflokki úígúra í Xinjiang-héraði í Norðvestur-Kína. 

Mannréttindasamtök hafa sakað stjórnvöld í Beijing um að setja um milljón úígúra í svokallaðar endurmenntunarbúðir og hundruð þúsunda þeirra í fangabúðir. Með þessu kunni þau að vera sek um þjóðernishreinsanir og glæpi gegn mannkyninu.

Karl Héðinn Kristjánsson (t.v.) og Sæþór Benjamín Randalsson (t.h.), nýir forystumenn Sósíalistaflokks Íslands, fyrir framan kínverska sendiráðið í Reykjavík í október.Karl Héðinn Kristjánsson

Úígúrar eru að meirihluta múslimar. Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna hvöttu kínversk stjórnvöld til þess að hætta að kúga þá og bæla niður menningu þeirra fyrr á þessu ári.

Formaður Sósíalistaflokksins segir það ekki trúverðugt að tala um meint brot gegn úígúrum á sama tíma og Bandaríkin, Bretland og Þýskaland taki þátt í „þjóðarmorði“ á múslimum í Palestínu.

„Erum við að hugsa um mannréttindi múslima eða ekki? Þetta er tortryggilegt vopn til að nota gegn Kína sem er óvinur Bandaríkjanna.“

Sæþór setur umræðuna í samhengi við að Bandaríkjaþing hafi samþykkt að verja milljörðum dollara í „andkínverskan áróður“ í fyrra. Virðist hann þar vísa til frumvarps sem fulltrúadeild Bandaríkjaþing samþykkti í fyrra sem er ætlað að vinna gegn „óvinveittum áhrifum“ Kínverja. Frumvarpið hefur ekki orðið að lögum.

„Erum við að hlusta á þennan borgaða áróður þegar við tölum um mannréttindi í Kína eða er þetta satt?“

Er það þá slæmt það sem er að gerast með úígúra í Kína?

„Ég held að það sem við höfum heyrt er ekki satt.“

Afrískur herforingi kominn í hóp bestu leiðtoganna

Víkur þá talið að ummælum Sæþórs um að Ísland væri heppið að hafa Xi, Pútín eða Kim sem leiðtoga. Er Sæþór enn sömu skoðunar rúmum tveimur árum síðar, árum sem hafa einkennst af áframhaldandi stríðsrekstri Rússa í Úkraínu og vaxandi spennu á milli Kína og Taívans?

„Nei, af því að mig langar til þess að setja Ibrahim Traoré í Búrkína Fasó [á listann].“

Ibrahim Traoré, leiðtogi herforingjastjórnar Búrkína Fasó, með Vladímír Pútín, forseta Rússlands, í Moskvu í maí.Vísir/EPA

Traoré þessi rændi völdum í Búrkína Fasó árið 2022 og hefur verið starfandi forseti herforingjastjórnar landsins síðan. Hann er afrískur þjóðernissinni og andheimsvaldasinni. Undir stjórn hans hefur Búrkína Fasó fjarlægt sig gamla nýlenduherranum Frakklandi en hallað sér að Rússlandi og Kína í staðinn.

Mannréttindasamtökin Mannréttindavaktin saka Traoré um að þrengja að fjölmiðlum og stjórnarandstöðunni í landinu, þar á meðal með því að kalla blaðamenn, aðgerðarsinna og aðra gagnrýnendur í herinn ólöglega til þess að refsa þeim fyrir andóf.

Sæþór leggur þó áherslu á að þetta sé hans persónulega skoðun en ekki Sósíalistaflokksins. Innan hans sé ólíkt fólk með mismunandi skoðanir.

„Ef ég þyrfti að setja tvo bestu segi ég að Xi Jinping og Ibrahim Traoré eru mjög góðir leiðtogar. Við erum með skort á góðum leiðtogum í vestrænum ríkjum,“ segir Sæþór og nefnir Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, sem dæmi um slæma leiðtoga.

Þá segir hann skrýtið að leita uppi tilvitnanir í hann um þessa leiðtoga á sama tíma og Ísland sé í bandalagi við ríki sem styðji þjóðarmorð í Palestínu. 

Ekki rætt stefnu flokksins

Sæþór svarar því ekki beint hvort að hann eða Sósíalistaflokkurinn sé fylgjandi því að taka upp sambærilegt stjórnarfar og er í Kína, Norður-Kóreu og Rússlandi á Íslandi. Flokkurinn þurfi fyrst að skýra stefnu sína gagnvart Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu í ljósi boðaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild að ESB.

„Ég get ekki svarað því við erum ekki með stefnuna. Forgangsröðunin er að halda fundaseríu um Evrópusambandið fyrst,“ sagði Sæþór.

Á þessum tímapunkti bað Sæþór blaðamann um að senda sér greinina fyrir birtingu því spurningarnar hljómuðu eins og áróðursgrein sem væri ætlað að mála hann og Karl Héðin í neikvæðu ljósi. Vísaði hann til að blaðamaður spyrði um „þessi naughty list sem þú ert að spyrja um aftur og aftur“ í stað þess að sýna því sem hann segði um Bandaríkin og vestræn ríki áhuga.

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, á hersýningu til þess að fagna áttatíu ára afmæli Verkamannaflokksins sem ræður lögum og lofum í landinu. Fulltrúi í kosningastjórn Sósíalistaflokks Íslands ferðaðist til Norður-Kóreu til að fagna afmælinu.Vísir/EPA

Þegar blaðamaður útskýrði að það væri fréttnæmt að forráðamenn stjórnmálaflokks sem byði fram á landsvísu á Íslandi lýstu aðdáun á leiðtogum eins og Xi, Kim og Pútín og að fæstir Íslendingar litu á einræðisherra Norður-Kóreu sem fyrirmynd um stjórnarfar sagði Sæþór það skýrast af því að ekki nógu margir blaðamenn bentu á hversu hræðileg lönd Bandaríkin og Bretland væru.

Sakaði hann blaðamenn um að hafa verið duglega í að útmála andstæðinga Bandaríkjanna sem slæm lönd en hunsa önnur vestræn ríki.

„Þú ert að undirbúa árásargrein. Þetta er ekki út af því að fólk á Íslandi er forvitið um pólitíska forvitni mína. Þetta er til þess að reyna að mála Sósíalistaflokk Íslands sem skrýtinn flokk þegar stærsta stefna okkar er að tala um húsnæðiskerfi og hagkerfi Íslands sem er ekki að virka vel og mörg mannréttindi lenda í slæmum málum á Íslandi,“ segir Sæþór og vísar til heimilisleysis, barnafátæktar og ótryggrar stöðu fólks á húsnæðismarkaði.

Ísland ekki hluti af lýðræðislegum heimshluta

Blaðamaður spurði Sæþór þá hvort það væri ekki fréttnæmt ef formaður annars flokk í framboð til Alþingi lýsti til dæmis aðdáun á Adolf Hitler eða Benito Mussolini.

Því ég held að mjög margir líti að minnsta kosti á Kim Jong-un og líklega Pútín á svipaðan hátt.

„Þau líta á Pútín vegna þess að það eru svo margir blaðamenn sem hafa tekið þátt í að réttlæta Úkraínustríð. Þetta var allt miklu flóknara og við fengum ekki allar upplýsingar því að við fáum fólk sem endurtekur AP, Associated Press, og Reuters fréttir frekar en að rannsaka sjálfir.“

Sæþór telur Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, (t.v.) og Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, (t..h) dæmi um slæma leiðtoga.Vísir/EPA

Það kemur Sæþóri ekki á óvart að Íslendingar hafi sömu skoðanir og Bandaríkjamenn á ríkjum sem þeir síðarnefndu líti á sem vini og óvini. Ef íslenskir blaðamenn ynnu vel væri ef til einhver blæbrigðamunur þar á.

Er ekki líklegra að Íslendingar séu sammála Bandaríkjamönnum því þeir búa í lýðræðisríkjum og þess vegna finnist þeim menn eins og Pútín ekki sérstaklega aðdáunarverðir?

„Bandaríkin eru ekki sérstaklega lýðræðisleg. Þetta er ólígarkakerfi.“

Ég er alltaf að spyrja út frá Íslandi en þú vilt alltaf tengja þetta við Bandaríkin.

„Ég held að við séum ekki mjög lýðræðisleg hér heldur. Hver eru stærstu málin ef þú spyrð Íslendinga? Þetta er húsnæði, húsnæði, húsnæði. Erum við að fá meira ódýrt og öruggt húsnæði hér á Íslandi? Nei, við erum það ekki. Við erum með ríkara og ríkara fólk sem er tengt fasteignakerfi, fasteignalánum og bankakerfi. Þessi hugmynd að við séum í lýðræðislegum parti af heiminum er bull.“

Fréttin hefur verið uppfærð með athugasemd Sæþórs um viðfangsefni refsiaðgerða ESB.


Tengdar fréttir

Krafa um fjöldabrottvísanir fólks nemur land á Íslandi

Hugtak um fjöldabrottflutning fólks af erlendum uppruna sem var þar til nýlega bundið við ystu hægri öfgar í Evrópu er byrjað að láta á sér kræla í íslenskri stjórnmálaumræðu. Varaþingmaður Miðflokksins gerði því nýlega skóna að reka íslenskan ríkisborgara úr landi í samfélagsmiðlafærslu.

Byrjað að daðra við rasíska samsæriskenningu

Varaformaður Miðflokksins hafnar því að hugmyndir hans um áhrif fjölgunar innflytjenda á Íslandi sé rasísk samsæriskenning heldur byggi þær á „tölfræðilegum staðreyndum“. Prófessor í stjórnmálafræði segir málflutning varaformannsins augljóst dæmi um að byrjað sé að daðra við samsæriskenninguna í íslenskum stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×