Innlent

Fóru ekki fram á lengra varð­hald yfir lög­manninum

Árni Sæberg skrifar
Lögreglan á Akureyri rannsakar málið.
Lögreglan á Akureyri rannsakar málið. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Norðurlandi eystra fór ekki fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir lögmanni, sem grunaður er um aðkomu að skipulagðri brotastarfsemi, og honum var því sleppt á föstudag. Hann sat í einangrun allar þær rúmu tvær vikur sem hann sætti gæsluvarðhaldi, vegna rannsóknarhagsmuna.

Þetta staðfestir Skarphéðinn Aðalsteinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Norðurlandi eystra, í samtali við Vísi. Hann segir rannsókn málsins enn í fullum gangi og lögmanninn því ekki lausan allra mála. Þó hafi ekki verið talin ástæða til þess að fara fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum.

Rannsókn málsins miði vel en hann kveðst ekki geta tjáð sig um hvort skýr mynd sé komin á málið. Þá geti hann ekki heldur tjáð sig um hvort fleiri séu með réttarstöðu sakbornings.

Lögmaðurinn var handtekinn þann 18. nóvember og húsleit var framkvæmd á heimili hans og vinnustað.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er maðurinn grunaður um að hafa aðstoðað fólk við að koma til landsins með ólögmætum hætti þar sem fólk hafi verið gripið við slíkt með nafn og símanúmer lögmannsins í handraðanum.


Tengdar fréttir

Lögmannafélagið aðhefst ekki

Stefán Andrew Svensson, formaður Lögmannafélags Íslands, segir félagið ekki hafa vitneskju um mál lögmanns sem er í gæsluvarðhaldi, grunaður um aðild að skipulagðri brotastarfsemi, umfram það sem komið hefur fram í fjölmiðlum.

Búast við að mál lögmannsins verði fellt niður

Verjandi lögmanns sem sætir gæsluvarðhaldi grunaður um skipulagða brotastarfsemi segir málið ekki það fyrsta sinnar tegundar. Hann þekki til minnst tveggja annarra mála þar sem lögmenn hafa sætt gæsluvarðhaldi en að rannsóknir þeirra mála hafi að lokum verið felldar niður. Hann og umbjóðandi hans búist fastlega við því að sú verði niðurstaðan í máli lögmannsins.

Lög­maðurinn neitar sök og kærir til Lands­réttar

Starfandi lögmaður sem handtekinn var fyrir viku og úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um skipulagða brotastarfsemi neitar sök og hefur kært úrskurðinn til Landsréttar. Maðurinn er meðal annars grunaður um að hafa aðstoðað fólk við að koma til landsins með ólögmætum hætti.

Lög­maður í haldi grunaður um skipu­lagða brota­starf­semi

Starfandi lögmaður var handtekinn fyrir viku og úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um skipulagða brotastarfsemi. Húsleit var framkvæmd á heimili lögmannsins og á vinnustað hans. Hann er meðal annars grunaður um að hafa aðstoðað fólk við að koma til landsins með ólögmætum hætti. Hann hefur auglýst gjaldfrjálsa lögmannsaðstoð til handa fólki sem kemur til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×