Innlent

Skildi vega­bréfið eftir

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Jóhann Páll í pontu á COP30 í Belém í Brasilíu.
Jóhann Páll í pontu á COP30 í Belém í Brasilíu.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, var að hefja erindi á COP30 ráðstefnunni þegar eldur brast út. Í flýti sínu til að komast út skildi sendinefnd Íslands eftir vegabréf og allan farangurinn. Tvísýnt var hvort þau næðu flugferðinni heim á miðnætti, og þá með allan farangurinn. Að lokum fengu þau að sækja farangurinn sem varð eftir og vegabréf ráðherra.

Loftslagsráðstefnan COP30 fer fram í borginni Belem í Brasilíu og sótti íslensk sendinefnd ráðstefnuna, þeirra á meðal ráðherrann Jóhann Páll. Klukkan tvö að staðartíma í dag kviknaði eldur á svæðinu og þurftu um fimmtíu þúsund ráðstefnugestir að forða sér út.

Þegar fregnir bárust af eldinum var Jóhann Páll að opna viðburð á ráðstefnunni en var skyndilega stöðvaður. Sendinefndin var á leið út á flugvöll í kjölfar fundarins og var því með allan farangurinn meðferðis. Þau þurftu hins vegar að flýta sér út og varð farangurinn eftir.

Hér má sjá viðbrögð Jóhanns Páls við eldinum.

Klippa: Eldur á COP30

Í samtali við fréttastofu segir Jóna Þórey Pétursdóttir, aðstoðarmaður Jóhanns Páls, að svæðið verði í fyrsta lagi opnað klukkan átta að staðartíma, en flug nefndarinnar er um miðnætti.

„Það gæti náðst að við náum í farangurinn því flugið er upp úr miðnætti en svo er hægt að fá neyðarvegabréf,“ segir Jóna Þórey.

Þau voru í sambandi við ræðismann Íslendinga í Brasilíu þurfi þau á neyðarvegabréfum að halda. Nokkrir valkostir voru í stöðunni að sögn Jónu Þóreyar, til dæmis að skilja einfaldlega farangurinn eftir og nýta sér neyðarvegabréf til að komast heim til Íslands.

Sagan endaði þó vel þar sem íslensku sendinefndinni var hleypt inn á svæðið rétt fyrir klukkan sex að staðartíma og nær því fluginu heim til Íslands.

Fréttin var uppfærð eftir að sendinefndin fékk aftur farangurinn og vegabréfin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×