Fótbolti

Reiðir yfir að fá ekki heita sturtu og kvarta yfir Arsenal

Sindri Sverrisson skrifar
Antoine Griezmann á æfingu Atlético Madrid á Emirates-vellinum í gærkvöld. Hann komst ekki í heita sturtu inni í klefa eftir æfinguna.
Antoine Griezmann á æfingu Atlético Madrid á Emirates-vellinum í gærkvöld. Hann komst ekki í heita sturtu inni í klefa eftir æfinguna. Getty/Harry Murphy

Leikmenn Atlético Madrid gætu mætt reiðir til leiks gegn Arsenal í Lundúnum í kvöld, í Meistaradeild Evrópu í fótbolta, vegna skorts á gestrisni hjá enska félaginu.

Spænska blaðið Marca segir að Atlético-menn hafi verið æfir í gærkvöld þegar í ljós kom að þeir gátu ekki farið í heita sturtu eftir lokaæfingu sína á Emirates-leikvanginum, fyrir stórleikinn í kvöld. Þeir telja óskiljanlegt að slík lágmarkskrafa skuli ekki uppfyllt hjá svo stóru félagi og í sjálfri Meistaradeild Evrópu.

Leikmenn Atlético höfðu æft í rigningunni á Emirates en enduðu á að þurfa að fara á hótelið sitt til þess að komast í sturtu.

Samkvæmt frétt The Athletic var heitavatnslaust í báðum búningsklefunum á Emirates-leikvanginum og var búið að bæta úr því innan við 40 mínútum eftir að Arsenal var upplýst um vandamálið. Það hefði dugað til þess að leikmenn Atlético kæmust í sturtu eftir æfingu ef liðið hefði ekki ákveðið að hafa æfinguna styttri en áætlað var.

Forráðamenn Atlético kvörtuðu til UEFA vegna málsins og hafa þeir fengið afsökunarbeiðni frá Arsenal.

Marca segir að mikil reiði hafi blossað upp þegar leikmenn Atlético Madrid hafi ekki komist í sturtu.Getty/John Walton

UEFA setur þá kröfur á félög að heitt vatn sé til staðar í búningsklefum en það á þó við um keppnisleiki en ekki æfingar.

Arsenal hefur unnið báða leiki sína í keppninni til þessa, gegn Olympiacos og Athletic Bilbao, en Atlético hefur unnið Frankfurt og tapað fyrir Liverpool.

Leikur liðanna hefst klukkan 19 á Sýn Sport Viaplay en hægt er að fylgjast með öllum leikjum kvöldsins í Meistaradeildarmessunni á Sýn Sport og hefst hún klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×