Fótbolti

Sandra María með tvö mörk annan leikinn í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sandra María Jessen fer vel af stað með Köln.
Sandra María Jessen fer vel af stað með Köln. vísir/anton

Landsliðskonan í fótbolta, Sandra María Jessen, skoraði tvö mörk þegar Köln vann öruggan sigur á Warbayen, 0-5, í 32-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í dag.

Sandra skoraði einnig tvö mörk í 1-2 sigri á Essen í þýsku úrvalsdeildinni á miðvikudaginn og er því búin að skora fjögur mörk í síðustu tveimur leikjum Köln.

Hin þrítuga Sandra gekk í raðir Köln frá Þór/KA um síðustu mánaðarmót. Köln er annað þýska liðið sem hún spilar fyrir en hún lék með Bayer Leverkusen, fyrst 2016 og svo 2019-21. Sandra lék einnig sem lánsmaður með Slavia Prag í Tékklandi 2018.

Sandra var valin leikmaður ársins í Bestu deild kvenna á síðasta tímabili og var markahæsti leikmaður hennar með 22 mörk. Í sumar skoraði hún tíu mörk í fjórtán deildarleikjum.

Sandra hefur leikið 57 A-landsleiki fyrir Ísland og skorað sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×