Fótbolti

Arna komin á blað í Noregi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sædís Rún Heiðarsdóttir og Arna Eiríksdóttir fagna með liðsfélögum sínum og stuðningsfólki.
Sædís Rún Heiðarsdóttir og Arna Eiríksdóttir fagna með liðsfélögum sínum og stuðningsfólki. vísir/ÓskarÓ

Arna Eiríksdóttir skoraði eitt marka Vålerenga í 4-0 sigri á Kolbotn í efstu deild norska boltans. Þá gaf Dilja Ýr Zomers stoðsendingu í 5-1 útisigri Brann á Lilleström.

Arna lék allan leikinn í öftustu línu Vålerenga og skoraði annað mark liðsins eftir undirbúning Olaug Tvedten á 54. mínútu. Sædís Rún Heiðarsdóttir lék klukkustund í sinni hefðbundni stöðu sem vinstri vængbakvörður.

Brann var ótrúlegt en satt 1-0 undir í hálfleik. Segja má að Diljá Ýr hafi breytt leiknum en hún kom inn af bekknum þegar síðari hálfleikur hófst. Gestirnir skoruðu svo fjögur mörk á tíu mínútna kafla og gerðu út um leikinn.

Diljá Ýr lagði upp þriðja mark liðsins. Það skoraði Brenna Lovera en sú þekkir vel til á Íslandi. Hún spilaði með ÍBV árið 2019 og Selfossi tveimur árum síðar.

Brann er á toppnum með 56 stig að loknum 21 leik. Þar á eftir kemur Vålerenga með 49 stig og leik til góða.

Amanda Andradóttir lagði þá upp síðasta mark leiksins þegar Twente pakkaði NAC Breda saman 6-0 í efstu deild Hollands. Twente vann þrefalt í Hollandi á síðustu leiktíð og hefur byrjað núverandi tímabil á tveimur sigrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×