Innlent

Sitjandi for­maður dregur fram­boðið til baka á kjör­dag

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Bæði Lilja Hrönn og Jóhannes Óli hafa tekið þátt í störfum Ungs jafnaðarfólks undanfarin ár.
Bæði Lilja Hrönn og Jóhannes Óli hafa tekið þátt í störfum Ungs jafnaðarfólks undanfarin ár.

Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir, sitjandi forseti Ungs jafnaðarfólks, hefur dregið til baka framboð sitt til áframhaldandi embættissetu. Það stefndi í forsetaslag tveggja virkra flokksmanna á landsþingi UJ í dag en mótframbjóðandi hennar er nú einn í framboði. 

Lilja Hrönn, meistaranemi í lögfræði og sitjandi forseti, var kjörin í embættið fyrir tveimur árum. Hún greindi frá því á Facebook í síðustu viku að hún hygðist sækjast eftir endurkjöri. Jóhannes Óli Sveinsson, hagfræðinemi og samfélagsmiðlastjóri UJ, tilkynnti framboð sitt sömuleiðis á samfélagsmiðlum. 

Vill ekki að fylkingar myndist

Sem fyrr segir fer landsþing Ungs jafnaðarfólks fram í dag. Lilja Hrönn birti færslu á ellefta tímanum þar sem hún dregur framboðið til baka. 

Hún segir að breiðfylking þurfi að byggja á breiðri sátt. Hún og Jóhannes Óli séu bæði mjög hæf til að sinna forsetaembættinu. 

„Í slíkum aðstæðum þá skiptist fólk í tvo hópa. Það er mitt mat að það sé ekki það sem hreyfingin okkar þarf á að halda, það er að segja að skiptast í fylkingar.

Það er af þeim ástæðum sem ég hef tekið ákvörðun um að draga framboð mitt til forseta Ungs jafnaðarfólks til baka,“ segir í Facebook-færslu Lilju Hrannar. 

Þá segist hún hafa tilkynnt kjörstjórn um framboð í framkvæmdastjórn UJ. 


Tengdar fréttir

Formannsslagur í vændum hjá Ungu jafnaðarfólki

Það stefnir í formannsslag á landsþingi Ungs jafnaðarfólks sem haldið verður eftir rúma viku. Samfélagsmiðlastjórinn vill forsetaembættið en sömuleiðis sækist sitjandi forseti eftir endurkjöri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×