Erlent

For­sætis­ráð­herra Japan segir af sér

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Ishiba á blaðamannafundi í morgun.
Ishiba á blaðamannafundi í morgun. EPA

Shigeru Ishiba, forsætisráðherra Japan, tilkynnti í dag að hann hygðist segja af sér, aðeins tæpu ári eftir að hann tók við embættinu. 

Ishiba er fulltrúi Frjálslynda lýðræðisflokksins í Japan og hefur flokkurinn verið í meirihluta þingsins síðustu fimmtán ár. Það var hins vegar nú í sumar þegar flokkurinn tapaði meirihlutanum í efri deild þingsins. 

„Nú þegar niðurstaða er komin í samningaviðræðum vegna bandarísku tollanna, tel ég að nú sé viðeigandi tími,“ sagði Ishiba er hann tilkynnti afsögnina.

„Ég trúði því að samningaviðræðunum vegna bandarísku tollanna, sem gæti verið lýst sem neyðarástandi á landsvísu, þyrfti að ljúka undir okkar stjórn.“

Japönsk stjórnvöld náðu samkomulagi við Bandaríkjastjórn í síðustu viku þar sem lægri tollar verða settir á japanska bíla og annan útflutning. 

Ishiba hyggst gegna embættinu þar til annar forsætisráðherra verður valinn samkvæmt BBC. Hann tók við embættinu 1. október 2024 en verðbólga hefur hækkað í landinu meðan á embættistíðinni stóð. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir að skipa einungis tvær konur í ráðherrastöður og átján karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×