Fótbolti

Tveir á spítala eftir slags­mál og flug­eldum skotið á milli stuðnings­manna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Flugeldum var kastað inn á völlinn og skotið í átt að fólki er Derry og Bohemians áttust við í írsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á föstudaginn.
Flugeldum var kastað inn á völlinn og skotið í átt að fólki er Derry og Bohemians áttust við í írsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á föstudaginn. Samsett

Tveir voru fluttir á spítala eftir slagsmál sem brutust út fyrir leik Derry og Bohemians í írsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á föstudag. Að leik loknum skutu einhverjir áhorfendur flugeldum í átt að öðrum stuðningsmönnum.

Það að viðureign Derry og Bohemians í írsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hafi endað með 1-1 jafntefli myndi alla jafna ekki rata í íslenska fjölmiðla. Það sem átti sér stað bæði fyrir og eftir leik gerið það þó að verkum að leikurinn fær athygli hér á landi.

Tveir karlmenn voru fluttir á spítala eftir að slagsmál brutust út fyrir leik, en lögreglan í Londonderry segir að um hafi verið að ræða fyrirframákveðinn hitting stuðningsmanna liðanna.

Í skýrslu lögreglu kemur fram að slagsmálin hafi brotist út um klukkan sjö og að hóparnir tveir hafi veist að hvor öðrum vopnaðir prikum, kylfum og járnstöngum. Skemmdir voru unnar á byggingum og bílum í nágrenni við Ryan McBride Brandywell völlinn, heimavöll Derry.

Ólátunum var þó ekki lokið þegar leikurinn hófst. Gera þurfti hlé á leiknum þegar flugeldur lenti á grasinu og að leik loknum mátti sjá einhverja stuðningsmenn skjóta flugeldum í átt að stuðningsmönnum andstæðinganna. 

Þrátt fyrir allt sem gekk á í kringum leikinn sagði lögreglan í Londonderry frá því í gær að enn hefði enginn verið handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×