Innlent

Ættingjar að verða fyrir hrylli­legum ódæðum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Fólkið segir fjölskyldur sínar verða fyrir hræðilegum ódæðum af hálfu vígamanna í Sýrlandi.
Fólkið segir fjölskyldur sínar verða fyrir hræðilegum ódæðum af hálfu vígamanna í Sýrlandi. Vísir/Bjarni

Drúsar búsettir á Íslandi boðuðu síðdegis í dag til mótmæla fyrir utan bandaríska sendiráðið við Engjateig í Reykjavík. Um er að ræða önnur mótmælin á þremur dögum en tilefnið eru blóðug átök í borginni Sweida í suðurhluta Sýrlands á milli trúarhópanna Drúsa og Bedúína. 

Báðar hliðar hafa sakað hvor aðra um að brjóta gegn vopnahléi sem samþykkt var á sunnudag og komið var á af hálfu bandarískra erindreka. Mótmælendur segja sitt fólk drepið og verða fyrir hryllilegum ódæðum á meðan alþjóðasamfélagið aðhafist ekkert.

„Við erum hér til að sýna fólkinu okkar í Sweida samstöðu,“ sagði einn mótmælenda við fréttastofu. „Þau hafa þurft að þola umsátur í níu daga núna, eru án rafmagns og án birgða. Þetta er svo hryllilegt að ég veit ekki hvað ég á að segja.“

Annar mótmælandi segir markmið mótmælanna að vekja athygli á hræðilegum aðstæðum fjölskyldna þeirra. „Við viljum bara láta rödd okkar heyrast í heiminum til heiðurs þeirra sem hafa dáið og þeirra sem enn berjast fyrir lífi sínu. Við getum ekki sagt meira, það skiptir ekki máli hvaða trú við fylgjum, við erum öll manneskjur og allir eiga að fá virðingu, jafnræði og frelsi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×