Fótbolti

„Skeptískir að ein­hver Ís­lendingur gæti gert Brann að góðu fót­bolta­liði“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Freyr Alexandersson, þjálfari norska úrvalsdeildarfélagsins Brann
Freyr Alexandersson, þjálfari norska úrvalsdeildarfélagsins Brann Mynd: Brann SK

Eftir tap í fyrsta leik fann Freyr Alexandersson fyrir þeirri gríðarlegu pressu sem fylgir því að vera þjálfari Brann í Noregi. Liðið fór sem betur fer af stað með látum eftir tapið.

Brann situr í öðru sæti norsku deildarinnar með tuttugu stig, þremur stigum á eftir Viking. Bodø/Glimt situr í 6. sætinu en liðið á fjóra leiki til góða vegna þátttöku þeirra í Evrópudeildinni.

„Heilt yfir erum við búnir að spila vel og niðurstaðan í stigum er meira en ásættanleg,“ segir Freyr sem fann sannarlega fyrir pressunni að vera þjálfari liðsins eftir 3-0 tap í fyrstu umferð. Freyr tók við liðinu í byrjun árs.

„Ég fann þetta alveg frá því ég kom til liðsins og eftir þennan tapleik gegn Fredrikstad var það svona súrrealísk upplifun. Þeir voru enn þá skeptískir að einhver Íslendingur gæti gert Brann að góðu fótboltaliði og ég fékk að finna fyrir því. Það var sett spurningarmerki við allt og ekkert en það var svo sem fínt að lenda í því þarna.“

Freyr þarf að hafa allar æfingar opnar fyrir fjölmiðlum. Það getur því verið erfitt að halda byrjunarliði Brann í næsta leik leyndu.

„Þetta er eiginlega pirrandi en ég er með samkomulag við þá að þeir eru ekki að setja út byrjunarliðið og skrifa um það og þegar ég er með einhverjar taktískar breytingar sem eiga hafa bein áhrif á næsta leik að skrifa ekki um það,“ segir Freyr sem er með Brann í toppbaráttunni eftir níu leiki.

„Við eigum þann draum að geta keppt um gullið en erum auðvitað að keppa á móti lið sem er á svona aðeins annarri hillu fjárhagslega, Bodø/Glimt sem er með mjög sterkt og rútínerað lið svo eru fjögur önnur lið sem eru mjög góð og þetta er allt mjög jafnt, en við eigum þann draum að geta keppt um þetta.“

Rætt var við Frey í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×