Innlent

Fimm keyptu gám sem er ekki til

Samúel Karl Ólason skrifar
Skjáskot af auglýsingu á gámnum.
Skjáskot af auglýsingu á gámnum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar fólk við því að kaupa gám sem er ekki til. Að minnsta kosti fimm hafa borgað fyrir gáminn eftir að hafa séð auglýsingu um hann á Facebook.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að auglýsingar um gáminn megi finna á fjölda sölusíðna á Facebook eins og Húsgögn til Sölu, Sunnlendingar með til sölu eða gefins, Bílaendursalan Ódýrir bílar til sölu 0 til 500 þúsund og fleirum.

Gámur þessi er sagður vera tuttugu feta langur og einangraður. Er sett á hann þrjú hundruð þúsund krónur.

Lögreglan segir söluaðila senda reikninga á kaupanda frá fyrirtæki sem komi málinu ekki við og bankaupplýsinga einstaklings sem tekur við greiðslunni á reikninginn. Í framhaldinu sé gámurinn aldrei afhentur.

Að minnsta kosti fimm hafa tilkynnt svona mál til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarna viku. Allir hafa tapað peningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×