Crys­tal Palace bikar­meistari í fyrsta sinn

Leikmenn Palace fagna hér marki Eberechi Eze.
Leikmenn Palace fagna hér marki Eberechi Eze. Vísir/Getty

Lið Manchester City var af flestum talið sigurstranglegra í leiknum en liðið var í sínum þriðja bikarúrslitaleik í röð en Palace lék síðast til úrslita árið 2016 þar sem liðið tapaði fyrir Manchester United.

Eina mark leiksins kom á 16. mínútu leiksins þegar Eberechi Eze skoraði eftir sendingu Daniel Munoz. Omar Marmoush fékk gott tækifæri til að jafna metin á 36. mínútu en Dean Henderson markvörður Palace gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu Egyptans og sá til þess að Palace hélt forystunni.

Áðurnefndur Munoz kom boltanum í netið á 58. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. City sótti mikið undir lok leiksins og Claudio Echeverri fékk meðal annars dauðafæri til að jafna metin en Henderson varði vel. 

Alls átti City tuttugu og þrjár marktilraunir í leiknum en náði ekki að koma boltanum framhjá Henderson í markiu. Gríðarlegur fögnuður braust út á meðal leikmanna og stuðningsmanna Palace þegar Stuart Attwell flautaði til leiksloka en þetta er fyrsti stóri titill Crystal Palace frá upphafi.

Með sigrinum tryggði liðið sér sæti í Evrópudeildinni á næsta tímabili.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira