Fótbolti

Hlakkar til að mæta „fótboltapabba“ sínum í úr­slita­leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Enzo Maresca aðstoðaði Manuel Pellegrini hjá West Ham United. Hann lék líka undir hans stjórn hjá Málaga.
Enzo Maresca aðstoðaði Manuel Pellegrini hjá West Ham United. Hann lék líka undir hans stjórn hjá Málaga. getty/Arfa Griffiths

Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, er spenntur fyrir því að mæta sínum gamla lærimeistara, Manuel Pellegrini, í úrslitaleik Sambandsdeildar Evrópu.

Chelsea og Real Betis mætast í úrslitaleik Sambandsdeildarinnar í Wroclaw í Póllandi 28. maí næstkomandi.

Maresca og strákarnir hans í Chelsea unnu Djurgården, 1-0, á Stamford Bridge í seinni leik liðanna í undanúrslitunum í gær. Enska liðið vann einvígið, 5-1 samanlagt.

Betis, sem Pellegrini stýrir, þurfti að hafa öllu meira fyrir hlutunum gegn Alberti Guðmundssyni og félögum í Fiorentina. Ítalarnir unnu fyrri leikinn, 2-1, en Betis jafnaði í seinni leiknum í gær og úrslitin réðust í framlengingu. Abde Ezzalzouli skoraði þar markið sem tryggði Spánverjunum sæti í sínum fyrsta úrslitaleik í Evrópukeppni.

Maresca mætti of seint á blaðamannafund eftir leikinn gegn Djurgården þar sem hann var að fylgjast með framlengingunni hjá Betis og Fiorentina. Hann spilaði undir stjóri Pellegrinis hjá Málaga og var svo í þjálfarateymi hans hjá West Ham United. Maresca hlakkar til að mæta Pellegrini í úrslitaleiknum í lok mánaðarins.

„Ég er ánægður að mæta Betis, sérstaklega vegna Manuels Pellegrini. Hann er svona fótboltapabbi minn. Svo við verðum mjög glaðir. Ég var með hann í fjögur ár, tvö sem leikmaður og tvö ár sem þjálfari hjá honum,“ sagði Maresca.

„Ég veit alveg hvernig hann hugsar um leikmenn en það mikilvægasta er að hann er heiðarlegur. Hann er góð manneskja og reynir alltaf að vera heiðarlegur við sína leikmenn. Og ég reyni að læra mikið af þessari aðferð.“

Sem leikmaður vann Maresca Evrópudeildina í tvígang með erkifjendum Betis, Sevilla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×