„Spennan á milli Indlands og Pakistan er mikið áhyggjuefni,“ segir Albert Jónsson, sérfræðingur í varnarmálum, en rætt var við hann um stöðuna í Kasmír í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Hann segir Kasmírdeiluna hafa staðið í áratugi og leitt til átaka og styrjalda á milli þessara aðila. Bæði lönd eigi kjarnorkuvopn og komi til átaka á milli þeirra geti það orðið stór átök.
„Indverjar hafa yfirburði yfir Pakistana þannig það er líklegra að Indverjar myndu hafa yfirhöndina en það gæti hins vegar leitt til þess að Kínverjar skærust í leikinn. Þeir eru bandamenn Pakistana. Þetta er svona eitraður kokteill,“ segir Albert.
Hann segir að í dag hafi, með spennu, verið beðið þess hvernig Pakistanar bregðist við en þeir hafa lýst því að þeir muni bregðast við á svipaðan hátt.
Hann segir tilvist kjarnorkuvopnanna geta dregið úr stigmögnun deilunnar. Það velkist enginn í vafa um eyðingarmátt þeirra og það sé almennt litið svo á að aðeins eigi að nota þau til að verja tilvistarrétt ríkja.
„Það eru engin tilvistarhagsmunir, að minnsta kosti ekki enn þá, í húfi í þessari deilu.“
Vona að deilan stigmagnist ekki
Albert segir að ef litið er til kalda stríðsins og samskipta Bandaríkjanna Sovétríkjanna hafi kjarnorkuvopnin til dæmis haft þau áhrif á hegðun. Þeir forðuðust stigmögnun. Það verði áhugavert að sjá hvort þau hafi sömu áhrif núna.
Hann segir marga binda vonir við það að vegna yfirlýsinga Pakistana um að þeir ætli að svara í sömu mynt þá verði ekki stigmögnun.