Innlent

Rekstur Reykja­nes­bæjar fram úr vonum vegna hærri útsvars­tekna

Kjartan Kjartansson skrifar
Afgangur af rekstri Reykjanesbæjar var mun meiri en lagt var upp með í áætlun fyrir árið 2024.
Afgangur af rekstri Reykjanesbæjar var mun meiri en lagt var upp með í áætlun fyrir árið 2024. Vísir/Vilhelm

Umtalsvert hærri útsvarstekjur eru sagðar ástæða þess að rekstrarniðurstaða Reykjanesbæjar í fyrra var töluvert betri en reiknað var með. Rúmlega 1,1 milljarðs króna afgangur varð af rekstri bæjarsjóðs í fyrra.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti ársreikning fyrir árið 2024 í gær. Rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs var jákvæð um 1.113 milljónir króna og samstæðunnar um 2.577 milljónir.

Upphaflega var gert ráð fyrir að afgangur af rekstri bæjarsjóðs yrði 149 milljónir króna, hátt í milljarð króna lakari afkoma en raunin varð. Í tilkynningu frá Reykjanesbæ er þetta rakið til umtalsvert hærri útsvarstekna en reiknað var með. Alls námu tekjur A-hluta bæjarsjóðs 27,8 milljörðum króna en gjöldin 25 milljörðum.

Veltufé á rekstri er sagt hafa verið notað í innviðauppbyggingu vegna mikillar fjölgunar íbúa undanfarin ár og í viðhaldsverkefni á skólahúsnæði og öðru opinberu húsnæði vegna rakaskemmda sem er lýst sem krefjandi.

Skuldaviðmið A-hluta bæjarsjóðs var 97,75 prósent og samstæðunnar 105,6 prósent. Skuldir bæjarins á hvern íbúa námu 1,4 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×