Erlent

Páfabíll verður færan­leg heilsu­gæsla fyrir börn á Gasa

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Um borð í bílnum verða læknar sem munu sinna lífshættuleg starfi heilbrigðisstarfsmannsins á Gasaströndinni.
Um borð í bílnum verða læknar sem munu sinna lífshættuleg starfi heilbrigðisstarfsmannsins á Gasaströndinni. Caritas í Jerúsalem

Einum svokallaðra páfabíla Frans páfa heitins verður breytt í færanlega heilsugæslu fyrir börn á hinu stríðshrjáða Gasasvæði. Bílinn notaði páfinn meðal annars á ferðalagi sínu til Betlehem árið 2014.

Þetta er gert að beiðni páfans og bíllinn verður útbúin öllu því til að sinna fólki í ýtrustu neyð á víglínunni en í morgun var greint frá því að stjórnvöld í Ísrael hefðu samþykkt að hernema Gasaströndina og halda svæðinu um óákveðinn tíma. Tugir þúsunda varaliðsmanna hafa verið kallaðir til þjónustu. Um tveir mánuðir eru frá því að Ísraelar lokuðu fyrir neyðaraðstoð inn á ströndina.

Því er enn óljóst hvenær páfabíllinn fái að þjónusta særð börn að sögn Caritas, góðgerðaarms Vatíkansins. Ísraelar hafa ekki virst líklegir til að hleypa alþjóðlegum góðgerðastofnunum inn á Gasasvæðið á nýjan leik en þegar og ef að því kemur verður páfabíllinn til reiðu búinn.

„Með þessum bíl getum við aðstoðað börn sem hafa í dag engan aðgang að heilbrigðisþjónustu, börn sem eru særð og vannærð. Þetta er raunhæf lífsbjörg þegar heilbrigðiskerfið á Gasasvæðinu er að niðurlotum komið,“ er haft eftir Peter Brune, framkvæmdastjóra sænska arms Caritas, í tilkynningu frá samtökunum.

Fram kemur í tilkynningunni að Frans páfi hafi skömmu fyrir andlát sitt óskað þess að páfabíllinn yrði gefinn skrifstofu Caritas í Jerúsalem til að veita nauðstöddum börnum nauðsynlega þjónustu. Um borð í færanlegri heilsugæslu páfans heitins verða aðföng til að sauma og sótthreinsa sár, súrefnisbirgðir og grímur, bóluefni og lítill ísskápur til að geyma önnur lyf.

„Bíllinn er tákn um kærleikann, umhyggjuna og nándina sem Hans heilaga náð sýndi þeim sem eiga sárast um að binda,“ er haft eftir Anton Asfar, framkvæmdastjóra Caritas í Jerúsalem.

„Þetta er ekki bara bíll, þetta er skilaboð um að heimurinn hafi ekki gleymt börnunum á Gasa,“ segir Peter Brune.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×