Brann tók tveggja marka forystu í fyrri hálfleik. Eggert Aron skoraði síðara markið á 36. mínútu eftir stoðsendingu frá Felix Horn Myhre.
Heimamenn jöfnuðu með tveimur mörkum snemma í seinni hálfleik. Eggert var síðan tekinn af velli á 61. mínútu þegar Brann gerði þrefalda breytingu, sem bar árangur.
Einn af þeim sem kom inn á, Mads Berg Sande, kom Brann aftur yfir á 81. mínútu. Aune Selland Heggebö innsiglaði svo 2-4 sigur með marki úr vítaspyrnu í uppbótartímanum.
Brann tapaði fyrsta leik tímabilsins gegn Fredrikstad en hefur síðan unnið fimm leiki í röð og situr í efsta sæti deildarinnar með 15 stig. Viking er þar á eftir með 13 stig.
Eggert kom til Brann frá Elfsborg í Svíþjóð síðastliðinn febrúar. Hann hefur komið við sögu í öllum sex leikjunum hingað til, gefið eina stoðsendingu og nú skorað sitt fyrsta mark fyrir félagið.