Chelsea skellti armenska liðinu Noah á Stamford Bridge. 8-0 varð niðurstaðan þegar allt kom til alls. Guðmundur Þórarinsson var ónotaður varamaður hjá gestunum.
Sex mörk voru skoruð í fyrri hálfleik. Ísinn brotnaði á 12. mínútu þegar Tosin Adarabioyo kom boltanum yfir línuna.
Marc Guiu, Axel Disasi og Joao Felix settu þrjú til viðbótar á næstu níu mínútum. Mykhaylo Mudryk komst svo á blað áður en Joao Felix potaði öðru marki inn rétt fyrir hálfleik.
Sjöunda markið skoraði Christopher Nkunku á 69. mínútu. Hann bætti svo öðru marki við af vítapunktinum sjö mínútum síðar. Hann hefur skorað fjögur mörk í fyrstu þremur umferðunum, sex mörk í fimm Evrópuleikjum þegar undankeppnin er talin með.
Honum tókst hins vegar ekki að klára þrennuna, fleiri mörk litu ekki dagsins ljós og Chelsea fór með afar öruggan 8-0 sigur.
Með stórsigrinum endurheimti Chelsea efsta sæti Sambandsdeildarinnar. Legia Warsaw, Jagiellonia, Vitoria, Hedenheim og Rapid Wien eru einnig með fullt hús stiga eftir þrjá leiki, en verri markatölu.