Hin 38 ára gamla Marta , sem er markahæsti leikmaður brasilíska landsliðsins frá upphafi, hefur áður gefið það út að þetta sé hennar síðasta ár með brasilíska landsliðinu. Hún er nú á sínum sjöttu Ólympíuleikum.
Í uppbótatíma venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik í leik Brasilíu gegn Spáni í C-riðli tók Marta glórulausa ákvörðun þar sem að hún fór allt of hátt með vinstri fót sinn í návígi við Olgu Carmonu, leikmann spænska landsliðsins.
Fótur Mörtu snerti höfuð Carmonu og var erfitt fyrir dómara leiksins að gera annað en að draga upp rauða spjaldið og reka Mörtu af velli.

Marta varð gjörsamlega miður sín og gekk grátandi af velli inn til búningsherbergja í leik sem gæti hafa verið hennar síðasti fyrir brasilíska landsliðið á stórmóti, jafnvel síðasti leikurinn hennar yfir höfuð fyrir Brasilíu.
Staðan var markalaus þegar að Marta var rekin af velli en ríkjandi heimsmeistarar Spánar settu tvö mörk í seinni hálfleik og fóru með 2-0 sigur af hólmi.

Brasilía endaði í 3.sæti C-riðils en eftir sigur Bandaríkjanna gegn Ástralíu seinna sama dag varð ljóst að Brasilía kæmist áfram í átta liða úrslit Ólympíuleikanna sem eitt tveggja liða í þriðja sæti riðlanna með besta árangurinn.
Brasilía mun mæta heimakonum í franska landsliðinu í átta liða úrslitum Ólympíuleikanna. Marta verður í banni í þeim leik og aðeins af Brasilíu tekst að vinna Frakkland mun hún snúa aftur til leiks á leikunum í undanúrslitum.