Fótbolti

„Höfum stigið upp þegar við erum komnir í útsláttarkeppnina“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Kane og enska landsliðið hafa ekki heillað með frammistöðu sinni hingað til.
Harry Kane og enska landsliðið hafa ekki heillað með frammistöðu sinni hingað til. Kevin Voigt/GettyImages

Harry Kane, framherji enska landsliðsins í knattspyrnu, virðist ekki hafa miklar áhyggjur af frammistöðu liðsins á EM til þessa.

Englendingar tryggðu sér í kvöld sigur í C-riðli er liðið gerði markalaust jafntefli gegn Slóveníu. Enska liðið endaði með fimm stig, vann einn leik og gerði tvö jafntefli.

Frammistaða liðsins til þessa hefur ekki heillað marga stuðningsmenn Englands og liðinu gengur bölvanlega að skora. Harry Kane, stjörnuframherji liðsins, virðist þó ekki hafa áhyggjur af því.

„Þetta var markmiðið fyrir mótið, að vinna riðilinn og vera með örlögin í okkar eigin höndum. Mér fannst við spila mun betur í kvöld en í hinum tveimur leikjunum. Við bara fundum ekki þessa lokasendingu, en okkur hlakkar til næsta leiks,“ sagði Kane eftir leik kvöldsins.

„Við sköpuðum nokkur hálffæri og við hefðum alveg getað gert betur í nokkrum þeirra.“

Hann hrósaði einnig leikmönnunum sem komu inn af bekknum í kvöld.

„Mér fannst strákarnir sem komu inn á standa sig mjög vel. Þeir mættu með gott orkustig og það er það sem við þurfum á að halda. Við þurfum á því að halda að allir séu að leggja sitt af mörkum og það er það sem við erum að gera akkúrat núna.“

„Þetta eru erfiðir leikir. Við höfum verið í þessari stöðu áður og stigið upp þegar við erum komnir í útsláttarkeppnina. Það eru allir leikirnir á þessu móti erfiðir. Þetta verður erfitt, en við erum með nægileg gæði til að halda áfram.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×