Erlent

Lýtalæknir hand­tekinn hálfu ári eftir að eigin­konan lést eftir að­gerð

Árni Sæberg skrifar
Benjamin Jacob Brown framkvæmir sennilega ekki lýtaaðgerðir á næstunni.
Benjamin Jacob Brown framkvæmir sennilega ekki lýtaaðgerðir á næstunni. Lögreglan í Santa Rosa-sýslu

Benjamin Jacob Brown, lýtalæknir í Flórída í Bandaríkjunum, hefur verið handtekinn vegna gruns um að hafa drepið eiginkonu sína af gáleysi í nóvember í fyrra. 

Í frétt CBS um málið segir að lögreglumenn hafi verið kallaðir til þann 21. nóvember síðastliðinn að læknastofu Browns. Þar hafi þeir fundið Hillary Ellington Brown, eiginkonu læknisins, í hjartastoppi og komið henni undir læknishendur. Hún hafi verið sett í öndunarvél en látist viku síðar.

Lögreglan í Santa Rosa-sýslu tilkynnti á mánudag að Brown hefði verið handtekinn eftir ítarlega rannsókn á andláti eiginkonu hans.

Fékk verkjalyfseitrun

Í frétt Pensacola News Journal segir að Hillary hafi greinst með eitrun af völdum verkjalyfsins Lidokain eftir aðgerð sem maðurinn hennar framkvæmdi. Aðgerðin hafi falið í sér lagfæringu á vöðva, fegrunaraðgerð vegna öra á kvið, fitusog úr handlegg og varafyllingu.

Rannsókn heilbrigðisyfirvalda í Flórída hafi bent til þess að Brown hafi ekki hringt á neyðarlínuna um leið og eiginkona hans missti meðvitund og ekki hafið fyrstu hjálp fyrr en minnst tíu mínútum síðar.

Þá hafi Brown framkvæmt óleyfilegar aðgerðir á skjólstæðingum sínum og ekki fylgt reglum um sótthreinsun.

Fórnaði sér svo læknirinn gæti ekki skaðað aðra

Í frétt Pensacola News Journal er haft eftir Marty Ellington, föður Hillary, að Brown hafi valdið fjölskyldu hans ævarandi sorg með kæruleysi hans.

„Egó hans og hroki urðu neyð hennar yfirsterkari og lengdu þann tíma sem hún þjáðist af súrefnisskorti í heila, sem leiddi til andláts hennar. Ben Brown svipti barnabörn mín móður þeirra, mig einkadótturinni og skærustu stjörnu okkar allra. Hillary fórnaði sér og gjalt fyrir með lífinu, til þess að Ben Brown geti ekki skaðað aðra. Kannski fær hann þá athygli sem hann á skilið í fangelsi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×