Innlent

Þeim fjölgar sem kenna án kennslu­réttinda

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Kennurum án kennsluréttinda hefur fjölgað undanfarin ár, en körlum við kennslu fjölgað
Kennurum án kennsluréttinda hefur fjölgað undanfarin ár, en körlum við kennslu fjölgað Vísir/Vilhelm

Skólaárið 2023-2024 voru 18,7% starfsfólks við kennslu í grunnskólum án kennsluréttinda og hefur hlutfallið ekki verið hærra frá árinu 2002. Réttindalausu starfsfólki við kennslu fjölgaði um 132 frá hausti 2022.

Þetta kemur fram í tilkynningu Hagstofunnar. Þar segir að hlutfallslega fleiri karlar en konur hafi verið án réttinda. Hlutfall karla án kennsluréttinda var 26,9 prósent en 16,9 prósent meðal kvenna. Meðalaldur starfsfólks við kennslu hefur lækkað lítillega frá fyrra ári, úr 46,7 prósentum í 46,1 ár. Þetta er vegna þess að meðalaldur starfsfólks án kennsluréttinda hefur lækkað úr 38 árum í 35,7 ár, en meðalaldur kennara með kennsluréttindi er 48,5 ár og er hann óbreyttur frá fyrra ári.

Karlar ekki verið fleiri síðan 2003

Þá segir að haustið 2023 hafi 9.475 starfsmenn verið starfandi í 8.415 stöðugildum í grunnskólum á Íslandi, en þar af störfuðu 5.911 við kennslu.

Karlar við kennslu voru 1.089 haustið 2003 og hafa ekki verið fleiri síðan 2003. Hlutfallslega hefur þeim þó fækkað á þessum tveimur áratugum, en árið 2003 voru þeir 23,3 prósent kennara en í dag rúmlega 18 prósent.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×