Verulega hefur þrengt að Grindavíkurbæ eftir að eldgos hófst í fyrradag við Sundhnúksgígaröðina. Hluti Nesvegar inn við Grindavík er undir hrauni og þá rann hraun yfir Grindavíkurveg fyrir ofan bæinn. Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að greiðfært sé um Suðurstrandarveg. Það sé því eina flóttaleiðin út úr bænum. Lokunarpóstar eru á Grindavíkurvegi, Suðurstrandarvegi og á Nesvegi.
Þá kemur einnig fram að þrengt hafi verið aðkomuleiðum Bláa lónsins þar sem hraun rann yfir Bláalónsveg við Nesveg. Bláa lónið er lokað. Í Grindavík og Svartsengi er unnið að viðhaldi eigna og þar fer einnig fram verðmætabjörgun.

Íbúum í Grindavík er heimilt að fara inn í bæinn en í tilkynningu lögreglu segir að ekki sé mælt með því. Þá mælir lögreglustjóri alls ekki með því að íbúar dvelji í bænum næturlangt.
„Hver og einn ber ábyrgð a eigin athöfnum eða athafnaleysi. Lögreglustjóri væntir þess að nú þegar við erum að upplifa áttunda gosið á Reykjanesskaga að þeir fáu einstaklingar sem hundsað hafa framangreind tilmæli hingað til, taki tillit til alls þess sem hefur verið gert í þágu Grindvíkinga og verji þá hagsmuni og sýni því skilning í þágu heildarhagsmuna,“ segir í tilkynningu.