Fótbolti

Rígur fram­tíðar eða valda­skipti: „Við munum snúa aftur“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Irene Paredes og Lucy Bronze með Lindsey Horan samlokaða á milli sín í úrslitaleiknum.
Irene Paredes og Lucy Bronze með Lindsey Horan samlokaða á milli sín í úrslitaleiknum. EPA-EFE/LUIS TEJIDO

Á laugardag vann Barcelona 2-0 sigur á Lyon í úrslitaleik Meistaradeildar kvenna í fótbolta. Barcelona hefur nú unnið Meistaradeildina tvö ár í röð, keppni sem Lyon einokaði lengi vel.

Lyon var lengi vel langbesta lið Evrópu og jafnvel heims. Liðið vann keppnina fimm ár í röð en eftir að fyrirkomulagi hennar var breytt – úr eingöngu útsláttarkeppni yfir í riðlakeppni og útsláttarkeppni – hefur Barcelona stigið upp sem besta lið Evrópu, og heims.

Barcelona hefur farið í úrslit undnafarin fjögur ár og orðið meistari þrívegis. Á sama tíma hefur liðið verið óstöðvandi heima fyrir sem og leikmenn þess hafa unnið síðustu þrjá Gullbolta (Ballon d´Or Féminin).

Það er ef til vill lýsandi að Aitana Bonmatí - besta knattspyrnukona heims árið 2023 - hafi skorað fyrra mark Barcelona í úrslitunum, og Alexia Putellas – besta knattspyrnukona heims 2021 og 2022 – hafi komið af bekknum og skorað síðara markið.

Þrátt fyrir þessa miklu yfirburði þá vann Lyon 3-1 sigur á Börsungum þegar liðin mættust í úrslitum vorið 2022 líkt. Sama var upp á teningnum þegar þau mættust vorið 2019. Raunar hafði Lyon aldrei tapað fyrir Barcelona, það er fyrr en á laugardaginn. Þá þurfti að fara áratug aftur í tímann til að finna síðasta tap liðsins í úrslitum Meistaradeildarinnar.

Þrátt fyrir að bæði Lyon og Barcelona hafa séð betri daga fjárhagslega þá virðist hafa hallað undir fæti hjá kvennaliði Lyon á meðan kvennalið Barcelona er svo gott sem ósigrandi. Hin bandaríska Lindsey Horan sagði í viðtali að hún hefði engar áhyggjur af Lyon og vitnaði í Tortímandann þegar hún sagði „við munum snúa aftur“ (e. We will be back).

Það verður áhugavert að sjá hvað gerist á næstu árum hjá þessum risa kvennaboltans en Jonatan Giráldez Costas, þjálfari Barcelona, mun færa sig til Washington Spirit í Bandaríkjunum í sumar. 

Þá er Sonia Bompastor, þjálfari Lyon, á leið til Chelsea og hver veit – mögulega mun hún gera Chelsea að því Evrópuafli sem liðinu dreymir um eftir að einoka enska meistaratitilinn til fjölda ára.


Tengdar fréttir

Barcelona Evrópu­meistari

Barcelona er Evrópumeistari kvenna í knattspyrnu eftir 2-0 sigur á Lyon í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Mörkin má sjá í fréttinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×