Fótbolti

Þór­dís Elva komin á blað og Guð­rún hélt aftur hreinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þórdís Elva gekk til liðs við Vaxjö fyrir tímabilið og skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir félagið í dag.
Þórdís Elva gekk til liðs við Vaxjö fyrir tímabilið og skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir félagið í dag. Vaxjö

Þórdís Elva Ágústsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í sænsku úrvalsdeildinni fyrir Vaxjö í 1-1 jafntefli gegn Djurgarden. Guðrún Arnardóttir og stöllur í Rosengard héldu hreinu og eru með fullt hús stiga. 

Framherjinn Bryndís Arna Níelsdóttir, liðsfélagi hennar hjá Vaxjö og áður Val, er frá keppni vegna meiðsla. Það kom ekki að sök því Þórdís steig upp snemma í seinni hálfleik og setti boltann í netið.

Vaxjö hélt forystunni heillengi en Tove Almqvist tókst að pota boltanum inn undir loks leiks og jafna fyrir Djurgarden. 

Vaxjö situr því í 9. sæti deildarinnar með 10 stig eftir átta umferðir. Djurgarden er í 6. sætinu með 14 stig. 

Á sama tíma hélt Guðrún Arnardóttir hreinu í 2-0 sigri Rosengard gegn Pitea. Guðrún lék allan leikinn í miðri þriggja manna vörn heimakvenna, sem sitja í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga eftir átta umferðir.

Rosengard hefur haldið marki sínu hreinu í sex af þessum átta leikjum. Þær fengu eitt mark á sig í 3-1 sigri gegn Kristianstad og annað í 6-1 sigri gegn Linköping. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×