Von er á fyrstu þremur þristunum til Reykjavíkurflugvallar í kvöld. Tveir þeirra fljúga frá Narsarsuaq á Grænlandi en sá þriðji kemur frá Goose Bay á Labrador. Búist er við að þeir lendi um kvöldmatarleytið, sá fyrsti fyrir klukkan 19 en sá síðasti upp úr klukkan 20.
Á flugfréttasíðunni Fróðleiksmolar um flug má greina tilhlökkun meðal flugáhugamanna. Þar er komu vélanna lýst sem augnakonfekti að vestan.
Það gerist sífellt fátíðara að svo gömlum flugvélum sé flogið yfir Atlantshafið. Þristarnir eru enda komnir á níræðisaldurinn og þeim fækkar sem tekst að halda flughæfum.

Fyrir fimm árum, í tilefni 75 ára afmælis D-dagsins, var boðið upp á sannkallaða þristaveislu á Reykjavíkurflugvelli. Þá höfðu alls fimmtán þristar viðdvöl hér landi á leið sinni yfir Atlantshafið.
Meðal þristanna sem núna er á von á er flugvélin „That’s All, Brother”. Hún leiddi innrásina í Normandí, innrás sem markaði þáttaskil í seinni heimsstyrjöldinni, og líta Bandaríkjamenn á flugvélina sem þjóðardýrgrip.
Fjallað var sérstaklega um komu þeirrar vélar í frétt Stöðvar 2 fyrir fimm árum, sem sjá má hér:
Nánar má fræðast um flugvélarnar og leiðangurinn á heimasíðu samtakanna D-day Squadron.