Fótbolti

Stutt gaman hjá Birki er Brescia missti af sæti í efstu deild

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Birkir Bjarnason með boltann í leik með Brescia sem berst um að komast upp í efstu deild á Ítalíu.
Birkir Bjarnason með boltann í leik með Brescia sem berst um að komast upp í efstu deild á Ítalíu. Getty/Luca Rossini

Birkir Bjarnason kom inn af varamannabekknum og var svo tekinn aftur af velli er Brescia féll úr leik í átta liða úrslitum í baráttunni um sæti í efstu deild ítalska boltans.

Nicolas Galazzi kom gestunum í Brescia yfir strax á áttundu mínútu áður en Pietro Iemmello jafnaði metin fyrir Catanzaro.

Gabriele Moncini kom gestunum hins vegar yfir á nýjan leik snemma í síðari hálfleik, en Birkir Bjarnason kom svo inn af bekknum á 67. mínútu.

Birkir var svo tekinn aftur af velli á 85. mínútu vegna meiðsla áður en Alfredo Donnarumma jafnaði metin fyrir heimamenn á sjöttu mínútu uppbótartíma og því þurfti að framlengja til að skera úr um sigurvegara.

Enrico Brignola kom heimamönnum í Catanzaro yfir á 105. mínútu áður en Pietro Iemmello gulltryggði sigurinn svo í uppbótartíma síðari hálfleiks framlengingarinnar og niðurstaðan varð því 4-2 sigur Catanzaro.

Catanzaro, sem endaði í fimmta sæti ítölsku B-deildarinnar, mætir Cremonese, sem hafnaði í fjórða sæti, í undanúrslitum. Venezia og Palermo mætast í hinni undanúrslitarimmunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×