Fótbolti

Í­huga að reka Xavi sem hætti við að hætta

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Xavi Hernandez gæti verið á förum frá Barcelona þrátt fyrir að vera hættur við að hætta.
Xavi Hernandez gæti verið á förum frá Barcelona þrátt fyrir að vera hættur við að hætta. Jose Breton/Pics Action/NurPhoto via Getty Images

Forráðamenn Barcelona íhuga nú að reka Xavi Hernández stuttu eftir að hann hætti við að hætta sem þjálfari liðsins.

Xavi greindi frá því í janúar á þessu ári að hann myndi stíga til hliðar sem þjálfari Barcelona að yfirstandandi tímabili loknu. Joan Laporta, forseti Barcelona, lýst hins vegar yfir áhuga um að halda Xavi og náði að sannfæra Spánverjann um að vera áfram fyrir tæpum mánuði síðan.

Ummæli Xavi á nýlegum blaðamannafundi hafa hins vegar farið öfugt ofan í stjórn Barcelona sem nú vill losa sig við þennan fyrrum miðjumann liðsins og spænska landsliðsins. Rafael Marquez, þjálfari B-liðs Barcelona, er sagður líklegasti arftaki Xavi.

„Ég held að stuðningsmenn Barcelona þurfi að gera sér grein fyrir því að staðan er mjög erfið, sérstaklega fjárhagslega, ef við viljum berjast við Real Madrid heimafyrir og önnur lið í Evrópu,“ sagði Xavi á blaðamannafundi fyrir leik Barcelona gegn Almeria á fimmtudag.

„Við munum aðlaga okkur að þessu. Það þýðir ekki að ég vilji ekki keppa og berjast um titla. Þetta er bara staðan sem Barcelona er í á þessari stundu. Við þurfum stöðugleika eins og er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×